Hnútur og eymsli í öðru brjóstinu

Spurning:

Sæl.

Undanfarið hef ég fundið til eymsla í hægra brjósti og þegar ég þreifaði eftir hnútum fann ég fyrir einhverju hörðu þar sem eymslin voru. Eg lét það bíða í mánuð og þegar ég þreifaði aftur voru eymslin horfin og einnig hnúturinn. Hnúturinn og eymslin virðast koma rétt fyrir blæðingar og yfirleitt hverfur þetta nokkrum dögum síðar, stundum hefur hnúturinn þó verið áfram en oftast hverfur hann. Getur þetta verið eitthvað annað en krabbamein, og ef svo er hvað getur þetta verið? Þess má geta að ég er 20 ára.

Svar:

Sæl.

Það er eðlilegt að finna fyrir eymslum í brjóstum fyrir blæðingar. Þau geta verið mismikil og jafnvel og verið meiri í öðru brjóstinu en hinu. Eymslin stafa af því að brjóstin verða sífellt fyrir áhrifum hormóna og auk eymslanna finna konur stundum þrymla og jafnvel smáhnúta sem síðan hverfa eftir blæðingar. Krabbameinshnútar hverfa ekki og eru oftar en ekki eymslalausir.

Kveðja,
Kristín Andersen, kvensjúkdómalæknir hjá Krabbameinsfélaginu