Hrædd um að missa fóstur

Spurning:
Góðan dag.
Málið er það að ég er búin að missa 2x fóstur, einu sinni fyrir 2 árum og á síðasta ári. Í fyrra skiptið var ég gengin tæpar 11 vikur og það seinna 7 vikur. Ég á eitt barn fyrir sem er að verða 6 ára. Það hefur ekkert mál verið fyrir mig að verða ófrísk og er ég ófrísk núna og komin 6 vikur. Vandamálið er að ég er svo hryllilega hrædd að missa þetta fóstur líka. Ég kippist við í hvert sinn sem ég finn einhvern sting í maganum, finnst alltaf eins og sé að fara að blæða, er alltaf að fara á wc til að athuga hvort það blæði hjá mér. Fer svo aftur eftir 10 mín. til að athuga hvort ég hafi kíkt nógu vel.
Ég er að vinna við þrif og í hvert skipti sem ég nota einhvern hreingerningarlög hugsa ég ,,ef ég anda þessu að mér þá ,,gæti" ég misst barnið mitt…". Ég er alltaf með hnút í maganum og mér finnst eins og þessar 2 vikur síðan ég vissi að ég væri ófrísk, heila eilífð að líða. Ég er búin að reyna að slappa af og hugsa ekki um þetta en þetta fer einhvernveginn ekki úr hausnum á mér.
Hvað get ég gert? Mér finnst ég ekki geta talað við ættingjana því ég vil ekki þurfa að segja þeim ef ég missi aftur. Það er svo erfitt. Maðurinn minn er mjög skilningsríkur en hann segir ekkert, hann getur ekki talað um svona hluti. Þegar ég les þetta yfir finnst mér ég hljóma eins og móðursjúk manneskja. En það sem mig vantar eru einhverjar ráðleggingar.
Með fyrirfram þökk, xxx

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það er vel skiljanlegt að þú sért kvíðin eftir að hafa gengið í gegnum tvö fósturlát en það er mjög mikilvægt að reyna að halda ró sinni og ýta slæmum hugsunum frá sér. Fyrstu 12 vikurnar eru erfiðastar eða þar til að þú ert komin yfir þann tíma sem þú misstir síðast. Yfirleitt á fósturlát sér stað á fyrstu 12 vikunum og er oftast einhver ástæða fyrir því að fóstrið lifi ekki, þarf ekki að vera neitt sem að þú hefur gert. Oft finnur maður einhverja stingi eða verki í maganum á þessum tíma og ekki þarf að vera neitt óeðlilegt við það því legið er að stækka. Ég myndi ráðleggja þér að panta þér tíma í mæðraskoðun sem fyrst og tala við ljósmóður sem getur stutt þig í gegnum þennan tíma. Vona að þú getir farið að njóta meðgöngunnar sem fyrst og gangi þér vel.

Kveðja Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.