Daginn.
Sæl verið þið. Er farinn að hafa smá áhyggjur af hröðum hjartslætti. Hann er þetta 90 til 110 slög meira og minna alltaf þó ég sé ekkert að gera.
Núna í þessum töluðu örðum er hann 103 og ég sit hér og pikka á tölvuna. Er það eðlilegt ?
Er nýkominn á háþrýstingslyf ( vika) en hann hefur verið ca. 140+ / 90+ undafarin 6-7 ár.
Ég er 51 árs gamall og hann lækkaði eitthvað við lyfin.
Með fyrirfram þökk.
Góðan dag og þakka þér fyrir fyrirspurnina,
Eðlileg hjartsláttatíðni hjá fullorðnum er á bilinu 60-100 slög á mínútu. Þetta er svo kallaður hvíldarpúls sem mældur er þegar einstaklingur er í hvíld, líkt og þú lýsir.
Eðlileg hjartsláttartíðni við hreyfingu er talsvert hærri, oft 130-150/mín. Stundum er formúla notuð til að finna hámarks hjartsláttartíðni við líkamsrækt, þar sem aldur er dreginn frá 220. T.d. fyrir þig væri þetta þá 220-51=169.
Þegar það kemur að gildum eins og hjartsláttartíðni og blóðþrýsting segir það manni mest að þekkja hver grunnmælingin er að staðaldri, svo kölluð grunnlína einstaklingsins. Þá er hægt að nýta grunnlínuna til að greina frávik og fylgjast með ef einhverjar breytingar verða á mældum gildum.
Mikilvægi þess að þekkja grunnlínuna felst í því að þetta getur verið mjög mismunandi á milli manna og stök mæling segir sjaldnast fulla sögu. Gott dæmi um þetta væri 57 ára kona sem hefur alla tíð verið með hjartsláttatíðni um 90-100 slög á mínútu í hvíld og hins vegar 25 ára afreksíþróttamaður með 35-40 slög á mínútu. Bæði eru með eðlilegan hjartslátt fyrir sína grunnlínu, en ef hvíldarpúls þeirra væri skyndilega víxlað myndi það teljast óeðlilegt ástand fyrir viðkomandi.
Það eru margir þættir sem hafa áhrif á hjartsláttartíðni og ber þar helst að nefna
- Líkamlegt ásigkomulag: Mjög gott líkamlegt form eða regluleg þolþjálfun hefur gjarnan í för með sér hægari púls, þar sem hjartavöðvinn styrkist við slíkt og þarf þar af leiðandi ekki að slá jafn oft til þess að dæla sama magn blóðs.
- Aldur: Gott dæmi um áhrif aldurs eru börn, en þau eru almennt með hraðari púls heldur en fullorðnir. Til að mynda er eðlilegt fyrir barn yngra en eins árs að vera með púls á bilinu 100-160 slög á mínútu.
- Kyn: Almennt eru konur með eilítið hraðari hjartslátt heldur en karlar, þar sem hjartað er aðeins smærra í konum en körlum og því er slagmagnið minna.
- Yfirþyngd: Auknar líkur eru á hraðari hjartsláttartíðni, auk þess eru meiri líkur á að viðkomandi þrói með sér hjarta og æðasjúkdóm.
- Tilfinningalíf: Streita hraðar hjartslátt og getur auk þess hækkað blóðþrýsting. Fólk sem stundar hugleiðslu og/eða slökun t.d. getur upplifað að það hægist á hjartslætti.
- Reykingar: Eykur líkur á hröðun púls, veldur auknum stífleika í æðum. Hækkar blóðþrýsting og eykur líkur á taktóreglu.
- Lyfjanotkun: Lyf geta ýmist hraðað hjartslátt eða valdið því að hægist á honum. Þetta fer eftir því hvaða áhrif lyfin hafa og er almennt talað um örvandi eða sljóvgandi lyf. Ýmis lyf til lækninga geta einnig haft áhrif á hjartsláttartíðni.
- Umhverfishiti: Hár umhverfishiti veldur örari hjartslætti þar sem vefir líkamans krefjast þá aukinnar súrefnisupptöku. Kuldi upp að vissu marki getur einnig valdið hröðum hjartslætti þar sem æðar dragast saman og hjartað þarf að púla meir til að koma súrefni til skila útí vefi og halda hita á líkamanum. Ofkæling veldur því að hægist á púls ásamt öðrum lífsmörkum.
Ef það er minnsti grunur um að eitthvað sé óeðlilegt við starfsemi hjarta og æðakerfis er mikilvægt að leita til læknis til þess að hægt sé að ganga úr skugga um að allt sé eins og það á að vera.
Þetta á sérstaklega við ef fyrri saga er um sjúkdóma í hjarta eða æðakerfi, s.s. greindur háþrýstingur, hækkun á kólesteróli eða saga um takttruflanir.
Lyf til meðhöndlunar á hækkuðum blóðþrýsting geta haft áhrif á hjartsláttartíðni. Til dæmis geta beta-blokkarar (s.s. atenólól) hægt á púls, á meðan önnur lyf (s.s. Feldíl) geta mögulega hraðað á hjartslætti. Þetta er meðal ástæðna þess að blóðþrýstingslyf eru gjarnan gefin saman til að draga úr áhrifum aukaverkana.
Þar sem þú nefnir að þú sért nýlega byrjaður í lyfjameðferð vegna háþrýstings væri ráðlegt að þú hefðir samband við þinn lækni til þess að skoða þessi einkenni og fara yfir það hvort þessi lyfjameðferð henti þér eða hvort endurskoða þurfi styrk eða tegund lyfja.
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur