Hræðsla vegna roða og kláða í augum

Spurning:
Fyrir nokkrum mánuðum missti ég fínsjónina á hægra auga v/ blóðtappa, hef þó að mestu fengið sjónina aftur núna. Er með háan blóðþrýsting og æðaskemmdir í báðum augum. Hef verið að fá mikinn roða í hvítuna á vinstra auga 2 sinnum á skömmum tíma og þetta hverfur svo á 4-6 dögum. Er líka oft með kláða og pirring í augum.
Er líklegt að þetta sé tengt fyrri vandamáli?
Eru meiri líkur á að maður fái blóðtappa aftur hafi maður einu sinni fengið blóðtappa?

Svar:
Sæl. Nei, þetta er líklega alls ekki tengt fyrra vandamáli. Í raun held ég að þarna sé um að ræða hvarmabólgu sem er að valda roða, kláðanum og pirringnum í vinstra auga. Besta ráðið við hvarmabólgunni er hin fræga þvottapokameðferð: 1. Tekinn þvottapoki og vættur upp úr heitu (já vel heitu) vatni 2. Heitur bakstur á bæði augu í 1-2 mínútur 3. Þvottapokinn er síðan notaður til að skrúbba vel hvarmana á báðum augum – passaðu bara augun sjálf. Þetta skal endurtekið á hverju kvöldi a.m.k. á meðan einkenni haldast. Hvað varðar síðari hluta spurningu þinnar, þá eru enn býsna litlar líkur á því að þú fáir blóðtappa á ný í augað og hvað þá hitt augað. Hins vegar geturðu haldið áhættunni í algjöru lágmarki með því að halda blóðþrýstingnum niður með hjálp læknis þíns og lyfjanna auk þess sem að lifa heilbrigðu líferni. Þar á ég sérstaklega við ef þú reykir en með því að hætta reykingum er hægt að minnka hættuna mjög verulega. Gangi þér vel, Jóhannes Kári.