Húðflúr (tattoo)

Spurning:

Sæl.

Ég hef lesið að það sé hægt að fjarlægja húðflúr með innrauðum leysigeislum (Ruby Laser treatment). Er þessi meðferð til á Íslandi og er þá hægt að fá upplýsingar hvar og hvernig þetta er gert? Kostnaður við aðgerðina má gjarnan fylgja með.

Með fyrirfram þökk,

Svar:

Það er rétt að í dag er hægt að fjarlægja húðflúr með leysigeislum. Til eru nokkrar tegundir leysigeisla, en þeir sem mest eru notaðir til að fjarlægja húðflúr eru svokallaðir Q-switced lazers og skilja þeir ekki eftir sig nein ör. Af þeim eru til nokkrar tegundir og er Ruby ein þeirra, Nd:Yag er önnur. Meðferð með Ruby Lazer hentar ágætlega til að fjarlægja húðflúr sérstaklega ef húð er ljós. Á einstaklingum með dökka húð er betra að fjarlægja húðflúr með Nd:Yag lazer, því minni líkur eru á að það svæði sem meðhöndlað er missi húðlit og verði ljósara en aðliggjandi svæði. Þess vegna er einnig mikilvægt að húðin sé ekki sólbrún þegar farið er í meðferð.

Þegar húðflúr eru sett á líkaman eru notuð litarefni sem sprautað er djúpt í húðina og eru litaragnirnar svo stórar að átfrumur líkamans, þ.e. þær frumur sem sjá um að fjarlægja aðskotaefni úr vefjunum ná ekki að fjarlægja þær. Leysigeislameðferðin virkar á þann hátt að litaragnirnar eru brotnar niður í smærri einingar þannig að átfrumur líkamans nái að fjarlægja þær.

Til að fjarlægja húðflúr þarf nokkrar meðferðir og skiptir máli hvar á líkamanum það er, hvernig húðflúrið er á litinn, hversu stórt það er og einnig hvernig það var gert í upphafi, þ.e. hversu djúpt niður í húðina það nær og hvaða efni voru notuð. Einnig skiptir máli hversu langt er síðan húðflúrið var sett á líkamann en best er að byrja ekki að fjarlægja húðflúr fyrr en það hefur verið á húðinni í a.m.k. 6 mánuði. Hver meðferð tekur um 10–15 mínútur og er svo til sársaukalaus. Á milli meðferða þurfa að líða að minnsta kosti 3 mánuðir til að líkaminn nái að fjalægja þau litarefni sem brotna niður í meðferðinni. Algengast er að það þurfi 3–7 skipti til að fjarlægja húðflúr, en þetta þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig.

Til upplýsingar um kostnað er best að hafa samband við meðferðaraðila, viðtalstími kostar 2.500 kr. hjá Laserlækningu ehf. í Domus Medica s. 563-1070 og 3.000 kr. hjá Húðlæknastöðinni s. 520-4444 og geta þessir aðilar þá gefið upplýsingar um endanlegan kostnað.

Gangi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir