Húðkrem á meðgöngu?

Spurning:

Er óhætt að nota bólubanana Dalacin og Retin-A kremið á meðgöngu? Ef ekki hvaða skaðlausu áburði er hægt að nota í staðinn á meðgöngunni?

Svar:

Það er í lagi að nota Dalacin áburð bæði á meðgöngu og við brjóstagjöf. En athuga ber að lyfið á einungis að nota við þrymlabólum í erfiðum tilfellum og í eins stuttan tíma og unnt er (vegna hættu á ónæmismyndun baktería).

Reynsla af notkun Retin-A hjá þunguðum konum er takmörkuð. Einstaka tilkynningar eru til um fósturskaða hjá nýburum kvenna sem hafa verið meðhöndlaðar með tretínóíni (virka efni Retin-A) á meðgöngu. Í afturvirkum rannsóknum á nýburum kvenna sem voru meðhöndlaðar með tretínóíni á fyrsta þriðjungi meðgöngu var ekki hærri tíðni fósturskaða miðað við nýbura kvenna úr sama hópi sem voru ekki meðhöndlaðar með tretínóíni. Til að gæta fyllstu varúðar á ekki að nota lyfið á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Upplýsingar um hvort tretínóín fari yfir í brjóstamjólk eru ekki nægilegar til að geta sagt fyrir um áhættuna fyrir barnið.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur.