Húðsjúkdómar á meðgöngu?

Spurning:
Góðan dag. Er í lagi að nota Emovat (vegna exem í andliti) og Elocon (exem í hársverði) á meðgöngu? Er nýlega orðin ófrísk og hef verið að nota Emovat og er nýbúin að fá Elocon en hef ekki notað það ennþá því ég var að lesa um það hér á doktor.is að þessi lyf gætu verið skaðleg fóstrinu. Með fyrirfram þökk.

Svar:
Emovat inniheldur meðalsterkan barkstera (klóbetasón, flokkur II). Elocon inniheldur hins vegar sterkan barkstera (mómetasón, flokkur III). Alls er um að ræða fjóra flokka frá flokki I, vægir barksterar til flokks IV, mjög sterkir barksterar. Hætta á aukaverkunum eykst eftir því sem barksterinn er sterkari. Flestir barksterar eru taldir hættulegir fóstri við inntöku eða innspýtingu. Frásog þegar þeir eru bornir á húð er hins vegar mjög lítið og því er í raun mjög lítil hætta á óæskilegri verkun á fóstur. Beint samband er milli styrkleika barksterans, magns sem notað er, stærð húðsvæðisins sem borið er á og tíðni annars vegar og magnsins sem frásogast hins vegar og þannig hættunnar á aukaverkunum á líkamann og þar með áhrifa á fóstur. Við alla notkun á meðgöngu skal því stefnt að því að nota væga eða meðalsterka barkstera og takmarka hversu mikið er borið á og hversu stórt svæðið er. Því ætti að vera allt í lagi að nota Emovat í andlitið. Ég mæli hins vegar með því að þú ráðfærir þig við lækninn þinn um hvort óhætt sé að nota Elocon í hársvörð.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur