Húðslit eftir meðgöngu

Fyrirspurn:

Góðan daginn.

Eg er meðspurningu varðandi húðslit eftir meðgöngu.

Þannig er mál með vexti að ég átti barn fyrir rúmum 3 mánuðum síðan. Sú meðganga var númer 2 í röðinni hjá mér.

Þrátt fyrir að hafa slitnað töluvert sem unglingur (stækkaði mjög hratt), þá slitnaði ég lítið sem ekkert á fyrri meðgöngunni og hélt að ég hefði sloppið mjög vel á þessari meðgöngu líka. í bæði skiptin slitnaði ég þó aðeins á innanverðum lærunum, þó örlítið meira í seinna skiptið. Núna eru þó farin að koma í ljós smá slitför á maganum á mér, þó ég hafi bara gengið saman og grennst síðan ég átti. Samt er eins og þetta séu öðruvísi slitför – það er eins og þau liggi undir húðinni, ekki eins og þessi týpísku sem mynda rákir á húðinni… Getur þetta eitthvað tengst hormónabreytingum ? Nú spyr ég af því að ég er á blæðingum í annað sinn síðan ég átti….

Hvað er til ráða gegn sliti ? Ég veit að þau hverfa aldrei alveg, en ég náði mjög góðum árangri með aloe vera geli þegar ég var unglingur… hvernig er með að skrúbba húðina svo hún endurnýi sig hraðar? Eða gæti skrúbbið gert illt verra ?

Kærar fyrirfram þakkir fyrir svarið.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Húðslit er örvefur sem þú getur því miður aldrei losnað alveg við en venjulega er slitið ( sem eru í raun og veru ör)  – rauðleitt á litinn í byrjun, en smám saman á næstu 1-2 árum þá hvítnar það og verður þá minna áberandi nema etv. í návígi. Það sem gerist er að  undirlög húðarinnar – leðurhúðin rifnar og það endurnýjar sig ekki með sama hætti og efsta húðlagið.  Þetta gerist við ofálag á húðina  t.d. við meðgöngu eða ef um ofþyngd eða of hraðan vöxt er að ræða. Ekki hefur verið sýnt fram á að neitt krem eða olía geti komið í veg fyrir húðslit, þar sem það eru neðri lög húðarinnar sem slitna, en mörgum finnst gott að bera krem á húðina og skiptir ekki öllu máli hvaða krem það er, bara að það sé mjúkt og rakagefandi. Skrúbb virkar bara á efsta húðlagið eins og kremin og ætti ekki að skipta máli til eða frá, ef þér finnst það virka þá skaltu endilega halda því áfram.

Kveðja

Guðrún Gyða