Hvað bendir gruggurt þvag til að sé að?

Gruggugt þvag

Góðan dag og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Gruggugt þvag getur verið merki um þvagfærasýkingu.  Þvagfærasýkingar eru oftast bakteríusýkingar í þvagrás, þvagblöðru, þvagpípum eða í nýrum.  Bakteríurnar fjölga sér og valda sýkingareinkennum. Oftast er um að ræða þarmabakteríur frá endaþarmi þess sem sýkist en aðrar bakteríur, sveppir eða sníkjudýr geta einnig verið orsök þvagfærasýkinga.

Konur eru í meiri hættu á að fá þvagfærasýkingar en karlmenn þar sem þvagrás þeirra er styttri en hjá körlum.

Algengustu einkenni þvagfærasýkinga eru:

  • Sviði við þvaglát
  • Tíð þvaglát og mikil þvaglátsþörf
  • Gruggugt þvag
  • Illa lyktandi þvag
  • Blóð í þvagi
  • Verkur yfir blöðrustað/kvið- og bakverkir
  • Þvagleki/teppa

Hækkaður líkamshiti, kuldahrollur og slappleiki geta einnig verið einkenni þvagfærasýkinga ásamt ólgleði, uppköstum eða niðurgangi.

Hætta á þvagfærasýkingu er meiri hjá konum sem eru kynferðislega virkar. Konur sem eru komnar yfir tíðahvörf eru einnig í meiri hættu vegna estrógenskorts sem getur leitt til þess að bakteríugróður í leggöngum er minna verndandi en áður.

Bakteríur geta verið í þvagi án þess að fólk hafi einkenni um sýkingu.

Helstu áhættuþættir þvagfærasýkinga eru sykursýki, meðganga og skert hreyfigeta. Einnig þættir sem hindra rennsli þvags um þvagfærin, eins og stækkaður blöðruhálskirtill, meðfæddir gallar í þvagfærum og bólgur. Inniliggjandi þvagleggir valda einnig aukinni áhættu á þvagfærasýkingum.

Einkenni og merki um þvagfærasýkingu fara eftir því hvaða þvagfæri er sýkt, kyni og aldri sjúklings og sýklinum sem veldur sýkingunni. Algengasti sýkingstaðurinn er í þvagblöðrunni.

Þegar grunur er um þvagfærasýkingu er tekið þvagsýni og sýklar í því ræktaðir og greindir. Þetta er gert til að geta valið viðeigandi sýklalyf gegn þeim, en sumir sýklar eru þolnir gagnvart tilteknum lyfjum. Oftast dugar sýklalyfjakúr í nokkra daga til að lækna þvagfærasýkingu.

Ég ráðlegg þér að hafa samband við heilsugæslulækninn þinn og ræða málið við hann.

Gangi þér vel,

Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur