Hvað er að hafa „vatn“ í hnénu

Spurning:

Ég er 37 ára karlmaður og ég er með vatn í hnénu. Hvað er það og hvað er hægt að gera við því? Hverfa verkirnir við uppskurð eða halda þeir áfram?

Svar:

Vatn í hné er ekki venjulegt vatn. Um er að ræða vökva (liðvökva) sem slímhimna hnésins myndar. Við eðlilegar aðstæður myndast aðeins ofurlítið af þessum vökva, en ef hnéð/slímhimnan verður fyrir áverka eða skaðlegri ertingu getur myndast svo mikill vökvi að hnéð bólgnar.
Auðvelt er að tappa vökvanum út úr hnénu með nál, en ekki er um lækningu að ræða og vandamálið er áfram til staðar. Vökvinn myndast nefnilega af því að það er eitthvað að í hnénu. Liðþófi getur verið skemmdur eða rifinn eða liðband skemmt. Einnig geta verið merki um slitgigt eða ertingu frá bakhlið hnéskeljarinnar þar sem e.t.v. má finna skemmt liðbrjósk. Fleira getur legið að baki bólgnu hnéi.

Þú kemst ekki hjá því að láta rannsaka hnéð nánar til að finna ástæðuna fyrir vökvamynduninni. Pantaðu tíma hjá heimilislækni, bæklunarlækni eða gigtlækni eftir því hvað þú heldur að henti best.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir