Hvað er að mér?

Spurning:
Málið er að ég hef oft þjáðst af þunglyndi og einmanaleika, og er núna á lyfjum.
Ég hef alltaf verið feimin og þegar ég var lítil var ég alveg hræðilega feimin sem versnaði síðan, þegar ég var í 8.bekk, en þá var ég lögð í einelti sem hafði mjög slæm áhrif á mig. Ég fór að skrópa í skólann og hætti algjörlega að mæta í leikfimi. Þegar loksins var talað við mömmu sagði ég henni frá þessu og eineltið var stoppað af, en ég var ennþá logandi hrædd við að mæta í skólann og fannst eins og öllum hlyti að vera illa við mig. Í 9. bekk byrjaði þetta að lagast og ég eignaðist vinkonur, sem ég var í góðu sambandi við. Síðan þegar ég kom í framhaldskóla lagaðist félagslega hliðin meira, ég kynntist fleirum og leið að mörgu leyti ágætlega þrátt fyrir að vera ennþá feimin og með allt of lágt sjálfstraust, en ég hélt áfram að skrópa bara á skynsamlegri hátt, ég reiknaði út hvað marga tíma ég mátti missa og passaði að missa ekki fleiri. Það gerðist reyndar stundum en þar sem ég fékk mjög góðar einkanir, varð það aldrei tíl þess að ég félli.
Jæja, þetta er kannski svolítið löng saga, en ég er að reyna að átta mig á því hvort ég sé haldin félagsfælni, því núna finnst mér ég aftur orðin hræddari við að tala við fólk, er búið að vera kannski seinustu tvö árin og fæ oft þörf fyrir að loka mig af og vera bara ein og þá meina ég alein ekki einu sinni nálægt barninu mínu og manninum mínum.
Ég er í Háskólanum og mæti reyndar alltaf og geri allt sem ég þarf að gera, en líður stundum hræðilega illa þar og fæ kvíðahnút í magann ef ég þarf að tala, auk þess sem ég þoli ekki að vera í litlum hóp því þá finnst mér allir geta séð mig, ég vil geta horfið í fjöldann. Þunglyndislyfin hjálpa en núna finnst mér vera að koma eitthvað bakslag aftur og ég á orðið erfitt með að geta sofið.
Spurningin er í raun hvað er að hjá mér? Svo er líka önnur spurning ég er búin að vera að tala við sálfræðing í nokkra mánuði, sem ég vil ekki nafngreina og mér finnst það ekki ganga nógu vel, samt farið að skána. Málið er að ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um hana og fæ það á tilfinninguna að hún taki minnst mark á mér. Hún á það til að skipta um umræðuefni þegar ég er að reyna að segja henni frá einhverju eða koma með komment eins og þetta er ekkert raunverulegt sem þú ert að hafa áhyggjur af eða þú gerir of mikið úr hlutunum. Þetta setur mig í baklás og mér finnst ég ekki geta treyst henni, stundum er þetta í lagi, en ég veit ekki. Á ég að skipta um sálfræðing og getur þú ráðlagt mér einhvern? Eitt enn, er eðlilegt að segja við skjólstæðing að það sé einhvers konar ótti sem valdi því að hún mæti í vinnuna? Ég sagðist alltaf kvíða svo fyrir því að fara af stað og ég þyldi ekki að þurfa að pína mig áfram hvert skref en væri hrædd um að ef ég byrjaði að láta það eftir mér að vera heima þá yrði það að vana. Svarið sem hún gaf er orðrétt, þetta er ekki túlkun hjá mér.
Jæja, er ég bara svona viðkvæm og það væri sama við hvern ég talaði eða myndirðu skipta?

Svar:
Sæl,
Mér finnst margt í lýsingunni benda til félagsfælni í bland við þunglyndið. Það að vilja vera einn og loka sig af er hins vegar mjög algengt einkenni þunglyndis.
Félagsfælnir vilja oft vera innan um fólk en kvíði þeirra kemur í veg fyrir að þeir treysti sér til þess. Það er samt ekki óalgengt að þetta tvennt, þ.e. félagsfælni og þunglyndi fari saman.
Allavega, mér finnst mikilvægt að þú getir rætt um líðan þína við einhvern sem hlustar og þú getur treyst. Vegna sögu þinnar um einelti og mikla feimni er mikilvægt að þú byggir upp sjálfsmyndina og sjálfstraustið. Það er samt alls ekki gefið að maður hitti á rétta fagaðilann í fyrstu atrennu. Samkvæmt lýsingunni þinni þá virðist vera kominn brestur í traust þitt í garð sálfræðingsins þíns. Það er auðvitað erfitt fyrir mig að dæma um hvort ástæðan fyrir óánægju þinni með viðkomandi stafi af viðkvæmni þinni eða ekki, þar sem ég þekki ekki nægilega vel málsatvik. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að skipta um sálfræðing ef þér finnst hann/hún ekki skilja þig nægilega vel. Það getur verið gott að fá ábendingar frá vinum eða ættingjum ef þeir vita um einhvern sem hefur reynst þeim vel.

Mig langar í lokin til þess að segja þér frá sjálfshjálparhópum Geðhjálpar sem hafa reynst mörgum gífurlega vel. Í sjálfshjálparhópunum ræðir fólk saman á jafningjagrunni.
Það eru nokkrir hópar sem þú gætir prófað og valið úr þann sem þér finnst henta þér best. Þátttaka í hópunum er algjörlega opin og án skuldbindinga og allir sem taka þátt eru bundnir trúnaði.
Hóparnir sem kæmu til greina eru eftirfarandi:

Mánudagur kl. 20.00: Kvíðaröskunarhópur

< p class="MsoNormal">Þriðjudagur kl. 20.00: Eineltishópur

Miðvikudagur kl. 20.00: Félagsfælnihópur

Fimmtudagur kl. 17.30: Þunglyndishópur.

Einnig er þér velkomið að hafa samband við okkur hjá Geðhjálp í síma 570-1700 ef þú vilt fá frekari upplýsingar.

Kær kveðja,
Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur
Geðhjálp