Spurning:
hvað er beinaskann og til hvers er það notað ?
Svar:
Beinaskann er myndgreiningartækni sem byggist á notkun ísótópa er hafa sækni í bein og liði. Beinaskönn eru því fyrst og fremst notuð til þess að greina sjúkdóma í beinum, svo sem æxlisvöxt eða sýkingar í beinum eða t.d. beinbrot í hrygg og mjaðmagrind sem ekki greinast með venjubundinni röntgentækni og svo hinsvegar er skann notað til greiningar liðbólgusjúkdómum, t.d. í hrygg (hryggikt). Við rannsókninna er gefin ísótóp með sprautu í æð og síðan eru sérstakar "myndavélar" sem nema ísótópavirknina og mynda þannig líkamann, þ.e. beinagrindina – á meðan viðkomandi liggur kyrr í nokkurn tíma. Tölvuhugbúnaður umbreytir síðan upplýsingunum í stafrænar myndir sem koma til gangs við greiningu margra stoðkerfissjúkdóma.
Beinaskann er hinsvegar ekki notað við greiningu á beinþynningu, þó að það gæti t.d. verið gagnlegt til þess að greina samfallsbrot í hrygg af völdum beinþynningar. Þá er notuð önnur myndgreingartækni sem byggir á lágorku röntgengeyslum; DEXA-tækni. Á sama hátt og við ísótópa beinaskann er notast við stafræna myndgreingartækni sem getur reiknað út steinefnamagn í beinum, þ.e. kalkmagn og þannig áætlað beinþéttnina.
Með kærri kveðju,
Halldóra Björnsdóttir