Hvað er brjósthimnubólga og hvernig lýsir hún sér?

Spurning:

Sæl Erla.

Hvað er brjósthimnubólga og hvernig lýsir hún sér?

Með þökkum.

Svar:

Sæl.

Þakka fyrirspurnina.

Brjósthimna er þunnar himnur sem umlykja lungun að utan og brjóstholið að innan. Þessar himnur liggja undir venjulegum kringumstæðum saman með þunna filmu af vökva á milli sín þannig að ekki myndast eiginlegt bil. Daglega fara í gegnum himnuna 5-10 lítrar af vökva sem jafnóðum er hreinsaður upp. Öll erting sem brjósthimnan verður fyrir getur valdið bólgu.

Brjósthimnubólga getur verið af völdum sýkinga ýmisskonar t.d. berkla. Hún getur einnig verið hluti af sjúkdómum í nærliggjandi líffærum s.s. í lungum og brisi. Einnig geta efni borist með blóðinu og valdið ertingu á himnunni. Þannig getur brjósthimnubólga t.d. fylgt gigtarsjúkdómum.

Einkenni brjósthimnubólgu eru mæði og verkur á brjóstholssvæðinu sem oft versnar við djúpa innöndun og hósta. Verkurinn kemur oftast skyndilega en mismunandi er hvernig hann lýsir sér, getur verið allt frá óljósum seiðingi upp í stingandi sársauka.

Greining brjósthimnubólgu byggist fyrst á sögu og skoðun læknis þar sem tekið er mið af einkennum þeirra fjölmörgu sjúkdóma sem valdið geta brjósthimnubólgu. Einkennin líkjast einkennum sjúkdóma í nærliggjandi líffærum t.d. hjarta og þarf því að útiloka slíkt. Við flesta þessarra sjúkdóma safnast upp vökvi milli himnanna tveggja en hann er hægt að sjá á röntgenmynd. Hægt er að taka sýni af vökvanum með ástungu og getur samsetning hans gefið vísbendirnar til greiningar undirliggjandi sjúkdóms.

Meðferð brjósthimnubólgu er háð undirliggjandi sjúkdómi.

Með von um að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja
Erla Sveinsdóttir, læknir.