Spurning:
Komdu sæl Ágústa.
Er eðlilegt að hafa púlsinn í 70 slögum á mínútu dagsdaglega?
Ég er 41 árs, 165 cm á hæð og 54 kg. Ég byrjaði í líkamsrækt um miðjan febrúar sl. og æfi þrisvar í viku.
Er mögulegt að púlsinn hafi hækkað eftir að ég byrjaði í æfingum? Ég stunda „body-pump“ og þolþjáflun.
Er ég kanski að ofgera mér?
Með þökkum fyrir væntanlegt svar.
Svar:
Komdu sæl.
Hjartsláttur fólks í hvíld er mjög einstaklingsbundinn. Hann getur verið á bilinu 40 til 80, jafnvel hærri.
Við reglulega þjálfun getur hvíldarpúls lækkað um u.þ.b. 1 slag á mínútu á 7-14 dögum á fyrstu 10-12 vikum þjálfunar. Þó að algengt sé að maraþon hlauparar séu með mjög lágan hvíldarpúls og kyrrsetufólk háan, er það ekki algilt og er því ekki ráðlegt að treysta á hvíldarpúls eingöngu til að meta þjálfunarástand fólks. Ég tel litlar líkur á að púlsinn hafi hækkað hjá þér eftir að þú byrjaðir að þjálfa. Ef þú ert hraust ert þú örugglega ekki að ofgera þér með þjálfun 3x í viku. Haltu áfram að æfa og bættu jafnvel við þolþjálfun 2x í viku í viðbót í 20-30 mín í senn og sjáðu hvort hvíldarpúlsinn fer ekki niður á við eftir nokkrar vikur.
Gangi þér vel.
Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari.