Hvað er felmtursröskun?

Spurning:
Sæll. Mig langar að athuga hvort hægt sé að fá upplýsingar um hvað felmtursröskun sé? Einnig langar mig að vita um lyfið Cybamil, hvort að það sé notað fyrir börn og hvort ekki þurfi að fara fram á greining á barninu áður en það er sett á lyfið?

Kveðja, móðir

Svar:
Samkvæmt Ameríska greiningarkerfinu (DSM-IV) einkennist felmtursröskun (panic disorder) af endurteknum kvíðaköstum þar sem nokkur eða flest af eftirtöldum einkennum koma fram:

Aukinn hjartsláttur Óhóflegur sviti Skjálfti Köfnunartilfinning Verkur fyrir brjósti Ógleði Svimi og yfirliðstilfinning Óraunveruleikatilfinning Finnast maður vera að missa tökin Hræðsla við að verða brjálaður Hræðsla við að deyja Doði í líkamanum Kuldaköst eða hrollur

Roði og hiti þessi endurteknu köst (panic attack) eru yfirleitt undir 10 mínútur að ná hámarki og vara yfirleitt í fáar mínútur. Ef köstin eru lengri tíma að ná hámarki þá er talað um háan kvíða (high anxiety). Köstin koma oft óvænt og geta verið tengd ákveðnum aðstæðum en stundum ekki. Til að greinast með felmtursröskun verða ennfremur að vera til staðar langvarandi einkenni eins og að hafa stöðugt áhyggjur af því að fá fleiri köst, áhyggjur af afleiðingum kvíðakastanna (t.d. fá hjartaáfall eða missa tökin) eða mikil breyting á hegðun í tengslum við köstin. Felmtursröskun er yfirleitt greind með eða án víðáttufðlni (agoraphobia). Víðáttufælni einkennist af hræðslu við aðstæður þar sem flótti gæti orðið erfiður (eða vandræðalegur) en einnig við mjög opin svæði.

Aðstæður geta verið fjölbreyttar eins og að fara einn út, fara í búðir, skóla eða strætó. Meginþátturinn er þó oftast hræðsla við að sleppa ekki út úr aðstæðum. Þetta leiðir til að einstaklingurinn forðast þessar aðstæður eða notar aðrar aðferðir til að finna fyrir öryggi (t.d. áfengi eða eiturlyf). Hugræn atferlismeðferð hefur sýnt bestan árangur við felmtursröskun og eru batahorfur mjög góðar með þeirri aðferð. Hugræn atferlismeðferð kennir fólki að takast á við kvíðann og túlka einkenni hans á réttan hátt. Þá eru er að takast jafnt og þétt á við aðstæður þannig að þær verði ekki lengur kvíðavaldandi. Ef þú vilt meiri upplýsingar þá get ég bent á netið: http://www.apa.org/pubinfo/panic.html 

Með kveðju Brynjar Emilsson Sálfræðingur Laugavegi 43 S: 661-9068