Hvað er fylgjulos?

Spurning:
Kæri doktor, mig langar að fá nákvæma lýsingu á hvað veldur og skeður við fylgjulos, hvort hægt er að sjá það fyrir ef reynt er og hversvegna sé hætta á að það endurtaki sig hjá sömu konu. Og að lokum: Hvað er hægt að gera til að viðkomandi vakni við blæðingu sem er alveg sársaukalaus?

Langar að fá ýtarlegt svar, ef svarað verður.

Svar:
Það kallast fylgjulos (abruptio placentae) þegar fylgjan losnar frá legveggnum áður en fæðing verður. Fylgjulos er sjaldgæft og hendir einungis í ca 2% meðganga og þá yfirleitt á síðasta þriðjungi meðgöngunnar. Orsakir fylgjuloss geta verið margvíslegar og ekki alltaf auðskýrðar en þær helstu eru högg og byltur, ör á legi, háþrýstingur, mikil þensla á leginu eins og t.a.m. við fleirburameðgöngu, margar fyrri meðgöngur og fæðingar, sykursýki, reykingar, mikil áfengisneysla og kókaínneysla. Hættan á fylgjulosi eftir eitt fyrra fylgjulos er um 5-15% en eykst eftir því sem fylgjulos verður oftar. Hefur það að líkindum að gera með örvef sem myndast í leginu. Einkenni fylguloss eru oftast þau að legið verður aumt viðkomu og oft fylgir mikill samdráttur í því þannig að það verður líka grjóthart. Verði fylgjulosið að nóttu eru litlar líkur á að konan sofi það af sér því verkirnir vekja hana. Yfirleitt blæðir frá leggöngum en þó er það ekki algilt því fylgjan getur losnað í miðjunni en brúnirnar verið fastar og þá lokast blóðið inni. Það er þó sjaldgæft. Fylgjulos getur stofnað lífi móðurinnar í hættu en mæðradauði er þó sjaldgæfur. Hins vegar er fóstrið í mjög mikilli hættu og fósturdauði við fylgjulos er um 25-30% og reikna má með að ríflega helmingur þeirra sem lifa af lendi í vandamálum í kjölfarið vegna blóðmissis og fyrirburafæðingar. Það þýðir lítið að liggja andvaka yfir möguleikanum á fylgjulosi því aldrei er með öllu hægt að koma í veg fyrir að fylgjulos verði. En lifi konur heilbrigðu líferni er vitaskuld minni hætta fyrir hendi. Mikilvægt er að þekkja líkama sinn vel og þekkja einnig einkenni þeirra kvilla sem upp geta komið á meðgöngu og fá góða mæðraskoðun.

Vona að þetta gagnist þér eitthvað en þurfir þú meiri upplýsingar er leitarorðið "abruptio placenta"

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir