Hvað er hugræn atferlismeðferð?

Spurning:
Mig langar voðalega mikið til þess að vita hvað hugræn atferlismeðferð er, og hvernig hún virkar? Gæti hún hjálpað við að vinna úr einelti eða offitu?

Svar:
Sæl.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) byggir á að skilja hvernig hugsanir hafa áhrif á atburði í lífi okkar, þ.e hvernig við túlkum eða metum þessa atburði. Samkv. HAM er það ákveðið hugsanamynstur sem hefur áhrif á tilfinningar okkar og hegðun. Með því að skilja þetta samspil er betur hægt að leiðrétta hugsanir sem valda okkur vanlíðan og mynda nýtt hugsanamynstur sem hentar okkur betur. HAM er yfirleitt skammtímameðferð þó að lengri meðferð sé nauðsynleg fyrir langvinnari vandamál. HAM hefur reynst vel gegn ákveðnum vandamálum, t.d. þunglyndi og kvíða en er einmitt einnig hagnýt fyrir þau vandamál sem þú spyrð um. Einelti er einmitt gott dæmi þar sem HAM ætti að gagnast vel. Þá er bæði hægt að vinna með gerendur og þolendur á einstaklingsgrundvelli en einnig er hægt að vinna með HAM í hópum. HAM hefur einnig verið notuð til að vinna á átvandamálum og er t.d. Reykjalundur með áherslu á HAM í sinni vinnu. Ef þú hefur frekari áhuga á að lesa um HAM þá má benda á cognitivetherapy.com eða nacbt.org fyrir vefsíður. Einnig má nálgast bækur um HAM á bóksölu stúdenta.

Með kveðju.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
s: 661-9068