Spurning:
Hvað er ,,Mitral Valve Prolapse Syndrome"? Er blóðþrýstingur hærri/lægri hjá fólki með slíkt heilkenni?
Með fyrirfram þökk G
Svar:
Komdu sæl ,,Mitral valve prolapse" hefur verið kallað míturlokubunga á íslensku og eflaust hafa fleiri heiti séð dagsins ljós. Míturlokan skilur milli vinstri gáttar, sem tekur við súrefnisríku blóði frá lungnablóðrásinni, og vinstri slegils sem dælir blóðinu út til líkamans. Þegar vinstri slegill dregst saman lokast míturlokan. Hún er gerð úr tveimur blöðkum sem leggjast saman þannig að ekkert blóð streymir til baka inn í vinstri gáttina þegar vinstri slegill dregst saman heldur ratar rétta leið út í ósæðina og þaðan út til hinna ýmsu líffæra. Þegar slaknar á vinstra slegli opnast lokan þannig að hið súrefnisríka blóð streymir úr vinstri gátt niður í vinstri slegil til undirbúnings næsta slagi, næstu pumpun blóðs út í líkamann. Þegar míturlokubunga eða ,,prólaps" er til staðar bungar fremri blaðka míturlokunna upp í vinstri gáttina. Stundum fylgir því nokkur leki, þ.e. blóð fer til baka úr vinstri slegli upp í vinstri gátt, en oftast er lekinn mjög lítill og ástandið algerlega saklaust. Bygging eða vefjagerð lokunnar er líka langoftast eðlileg. Í sjaldgæfum tilfellum getur lokan verið vefjafræðilega afbrigðileg og rík af svokölluðum ,,mucopolysaccharíðum". Slíkar lokur hafa tilhneigingu til að bunga langt inn í vinstra forhólf og þá er hætta á verulegum, stundum miklum míturleka. Getur kveðið svo ramt að slíkum leka að nauðsynlegt reynist að laga lokun með skurðaðgerð eða jafnvel skipta um loku og setja gerviloku. Það skal ítrekað að slíkar aðstæður eru sjaldgæfar og langoftast er míturbunga algerlega saklaust tilbrigði sem hefur engin áhrif á starfsemi hjartans.
Kveðja,
Guðmundur Þorgeirsson, hjartasérfræðingur