Hvað er sarklíki?

Spurning:

Hvað er sarklíki?

Svar:

Sarklíki (sarkoidosis) er langvinnur sjúkdómur af óþekktri orsök. Sjúkdómurinn kemur oftast fram hjá fólki á aldrinum 20-40 ára og er aðeins algengari hjá konum en körlum. Truflun verður í ónæmiskerfinu og frumur þess safnast upp í ólíkum líffærum og valda truflun á gerð þeirra og starfsemi. Sjúkdómurinn getur birst í ólíkum myndum eftir því á hvaða líffæri hann leggst og einkenni hans geta því verið mismunandi. Hann kemur fram í lungum í um 90% tilvika og einkenni sem þá geta komið fram eru mæði, þurr hósti og verkur fyrir brjósti. Önnur algeng líffæri sem sjúkdómurinn kemur fram í eru eitlar, húð og augu. Sjúkdómurinn gengur oft yfir af sjálfu sér en stundum þarf meðferðar við sem þá felst oftast í töku barkstera.

Með von um að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.