Spurning:
Halló.
Ég er með mjög miklar áhyggjur af bróður mínum. Er eitthvað sem ég get gert til þess að hjálpa honum? Málið er að hann er með félagsfælni og þunglyndi og mjög líklega sykurfíkn eða offitu og er reyndar á lyfjum við félagsfælninni og þunglyndinu, sem mér finnst greinilega ekki vera virka nógu vel. Hann reyndar skánaði mjög mikið eftir að hann byrjaði á lyfjunum en hann er samt ennþá mjög félagsfælinn og þunglyndur. Hann er 18 ára og á enga vini! Ekki einu sinni einn vin. Hann er alltaf einn og er oftast bara heima nema þegar hann er í vinnu eða skóla og hann er reyndar mjög duglegur í skólanum og vinnuni. Hann er alltof feitur og mér finnst hann vera að fitna meira og meira með hverri vikunni. Hann borðar nammi á hverjum degi og mikið af því! Er hann sykurfíkill? Eða getur verið að hann fái meiri lyst á lyfjunum? Ég sé á honum að honum líður ekki vel og er einmana – er eitthvað sem ég get gert fyrir hann?
Svar:
Sæl.
Jú sum lyf geta valdið aukinni matarlyst og getur fólk þyngst talsvert. Best er að hann sé í reglulegu eftirliti hjá geðlækni sem fylgist með áhrifum lyfjanna og aukaverkunum. Hægt er að vinna á félagsfælni og þunglyndi með sálfræðimeðferð og sýna rannsóknir bestan árangur þegar bæði lyf og sálfræðimeðferð er beitt samtímis. Fólk sem er þunglynt og sérstaklega þeir sem eru með mikla félagsfælni einangrast á heimilum sínum þar sem samskipti við ókunnuga valda miklum kvíða. Ef að ástandið á bróður þínum er mjög slæmt þá þarf hann að fara til geðlæknis eða leita til göngudeildar geðdeilda Landspítalans við Hringbraut.
Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur