Hvað get ég gert við bólum á baki ?

Spurning:
Hvernig er hægt að losna við bólur á baki og öxlum?
Ég hef aldrei verið með neitt sérstakt bóluvandamál fyrr en nú og fæ sjaldan bólur á andlitið en það eru alltaf að koma bólur á bakið. Ég hugsa að þetta sé eitthvað hormónatengt. Mig langar að losna við þetta sem fyrst.
Ætti ég að fara til læknis eða get ég gert eitthvað sjálf til að losna við bólurnar?
Hvað gerir húðsjúkdómalæknir við þessu vandamáli?
Svar:
Eins og þú talar um þá geta bólurnar verið hormónatengdar og þá er oft erfitt að losna við þær nema tala við lækni, mjög algengt er að konur fái bólur ef þær byrja á pillunni eða verða ófrískar. Þú getur notað kornakrem til að djúphreinsa húðina og síðan hreinsimaska en best er að byrja á því að fara á snyrtistofu í bakhreinsun þar sem húðin er hreinsuð vel upp og er þá auðveldara að halda henni góðri heima. Ef húðin er mjög slæm þarf að koma í nokkur skipti, eins fengirðu ráðleggingar um hvað þú getur gert heima til að halda húðinni góðri. Oft hjálpar að fara í ljós því það þurrkar upp bólur en farðu samt varlega því mikil notkun sólarlampa er ekki holl. Ef húðin er mjög slæm, sem erfitt er að dæma um án þess að hafa séð hana, er nauðsynlegt að fara til húðsjúkdómalæknis og eru þá oft gefin lyf sem þurrka upp bólur. Ég vona að þessar ráðleggingar hjálpi þér eitthvað því þetta er leiðinda vandamál, sérstaklega þegar sólin fer að skína og við viljum vera léttklædd. Sigrún Konráðsdóttir Snyrtifræðingur