Hvað getur hækkað ferritín þýtt?

Spurning:
Góðan daginn.
Mig langar að fá upplýsingar um ferratín. Ég var hjá bæklunarlækni í eftirskoðun vegna 4 hnéaðgerðar minnar sem er afleiðing eftir umferðaóhapp. Læknirinn minn fór að spyrja mig um ástand mitt svona almennt og sagði ég honum eins og var að ég væri miklu betri í fætinum eftir aðgerðina en samt er staðan alls ekki góð, þ.e. ég er með stöðuga verki og geta til gangs takmörkuð. Ég fékk á sínum tíma mikið óþol eftir inntöku á Voltarin Rabit bólgueyðandi lyfs og í framhaldi af því þurfti að taka úr mér allar tannfyllingar þar sem ég var komin með Lichen Planus í munninn, stöðug sár sem ekki gréru. Til að losna við þessi sár var ég með sterakrem, tannfyllingar fjarlægðar og síðan hef ég verið á nikkelfríufæði.
Ég er búin að vera í miklum rannsóknum í kjölfar þessa heilsuleysis og greindist fyrir ári síðan með Sjögren heilkenni og síðan í haust hef ég tekið 12.5mg af Vioxx á morgnana og verið miklu betri af verkjunum, en nú fyrir hálfum mánðuði var ég farin að finna fyrir miklum þrýsting í höfðinu og svona eins og ég væri á botni sundlaugar og tilfinningin var svona eins og rétt áður en hella kemur, mjög óþægilegt. Þetta töluðum við um ég og bæklunarlæknirinn minn, þá allt í einu spyr hann mig hvernig er ferritín magnið hjá mér sé. Það vissi ég ekki hafði aldrei heyrt þetta orð fyrr, hann hringir í rannsóknastofuna sem ég hafði farið í blóðrannsókn í haust áður en ég byrjaði að taka Vioxx og þar fékk hann staðfest að ferritínið væri 232 en að hans sögn er 120 viðmiðið fyrir konur: Hann sagði mér líka að þegar þetta er svona getur það orsakað bólgur í liðum og skemmdir, en ég er bólgin í öllum liðum hægra megin, frá kinn og niður í tábein. Gigtarlæknininn minn segir að þessi bólga sé ekki gigt heldur eitthvað sem stundum er kallað Tinus.
Eins og þú sérð er heilsan ekki góð og nú síðasta mánuð hef ég verið að missa augnhárin, það er komið ca.1/2cm autt bil á bæði augu. En eitt er alveg í lagi og það er geðheilsan. Ég er jákvæð og lít á þetta sem verkefni sem þarf að klára og vakna glöð þrátt fyrir verki.
Hvað er gert við of háu ferritín magni í blóð? Hvað er Lichen Planus? Hvers vegna missir maður augnhárin? Gott væri að fá svör sem fyrst svo ég geti farið að vinna í mínum málum, ég er hætt að taka inn Vioxxið og líka C-vítamínið sem ég hef verið að taka. Er einungs að taka Losec mups vegna bakflæðis.
Kær kveðja, ein sem bíður eftir svari.

Svar:
Sæl.
Hækkað ferritin getur verið merki um bólgu, s.k. acute phase reactant, líkt og sökk. Hinsvegar getur það líka orðið mjög hátt í sjúkdómi sem kallast Hemochromatosis og stafar af upphleðslu á járni í vefi. Það getur valdið liðbólgum og ýmsum öðrum einkennum. Þetta er ættgengt og hægt að gera ákveðin genapróf til að greina sjúkdóminn. Einnig hægt að fá frekari vísbendingar með því að mæla járn og járnbindigetu sem er venjulega hækkuð í hemochromatosis. Meðferðin við þessu er að tappa blóði af sjúklingnum og er hún einkum í höndum blóðmeinasérfræðinga. Heimilislæknir viðkomandi getur þó annast uppvinnsluna og vísað sjúklingi áfram ef víst þykir að hækkunin stafi ekki einfaldlega af bólgu í kjölfar aðgerðar.

Lichen Planus er húðsjúkdómur.
Tinus hef ég aldrei heyrt um, grunar að þetta sé rangt stafað

Arna Guðmundsdóttir, læknir