Spurning:
Sæll.
Hvað með Herbalife? Mælir þú með því?
Svar:
Sæl.
Þú spyrð hvort ég mæli á móti Herbalife. Svar mitt er: Nei. Ég vil rökstyðja svar mitt með nokkrum orðum.
Hvað er Herbalife?
Herbalife er bandarískt fyrirtæki sem hefur starfað síðan um 1980 og framleiðir ýmsar „heilsuafurðir” í formi dufts og pilla og snyrtivörur. Afurðir Herbalife-fyrirtækisins eru seldar í „heimasölu” og ein líkleg ástæða vinsælda þess er að hinn almenni borgari sér hagnaðarvon í að gerast þátttakandi. Í bæklingi sem væntanlegir sölumenn fá í hendur er gefið í skyn að mögulegar árstekjur þeirra séu 47.704.440 krónur. Þeir eru sjálfsagt ekki margir sem slá hendinni á móti 48 milljónum króna!
Auglýsingaskrum
Þeir sem að Herbalife standa auglýsa það ekki bara sem megrandi heldur einnig sem hreinsandi og lækningamáttur þess á að vera svo mikill að ýmsir kvillar sem læknavísindin standa ráðþrota gegn læknast. Svo vitnað sé í áðurnefndan bækling þá er fullyrt að Herbalife sé meðal annars áhrifaríkt í baráttunni gegn offitu, þvagvandamálum, ofnæmi, áunninni sykursýki, kvensjúkdómum, meltingarkvillum, þreytu, skalla, gráum hárum og ótímabærri ellihrörnun.
Enginn undraverður máttur
Auðvitað leynist enginn undraverður lækningamáttur í afurðum Herbalife-fyrirtækisins og ástæða þess að fólk léttist er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú að hitaeiningafjöldinn sem kaupendum er gert að neyta er af skornum skammti eða vel innan við 1.000 á dag. Sem dæmi má nefna að fram að kvöldmat á aðeins að neyta tveggja skammta af Herbalife-megrunarduftinu sem blandað er í undanrennu. Hitaeiningagildi þessara tveggja skammta samsvarar ekki nema um 330 hitaeiningum!
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að það er ekkert athugavert við það að neyta næringarríks dufts en því miður hefur komið í ljós að sumar afurðir innan Herbalife-línunnar innihalda efni sem beinlínis geta verið skaðlegar heilsu einstaklinga. Þess skal þó jafnframt getið að ýmsar Herbalife-afurðir eru leyfðar í sölu og má þar nefna ýmis vítamín, steinefni og trefjaefni. En þau virka að sjálfsögðu eins og hver önnur sambærileg vítamín, steinefni og trefjaefni sem hægt er að kaupa víða eins og í stórmörkuðum og apótekum. Af ríflega 20 vörutegundum frá Herbalife sem hafa verið auglýstar og seldar hér á landi sem náttúruvörur og/eða fæðubótarefni hefur Lyfjaeftirlit Ríkisins lagt bann við sölu um þriðjung þeirra. Sú vitneskja ein ætti að sýna fólki fram á að fullyrðingar um hollustugildi og kraftaverkamátt Herbalife-afurða eru ótrúverðugar, svo vægt sé til orða tekið.
Ekki allt sem sýnist
Það sem er kannski verst fyrir neytendur er að þeir eiga mjög erfitt með að vita fyrir víst hvort þær afurðir sem þeir eru með í höndum séu löglegar hér á landi og geta þar af leiðandi lent í því að neyta efna sem svo sannarlega kunna að vera skaðleg heilsu. Staðreyndin er því miður sú að þó að sala ákveðinna Herbalife-afurða sé samkvæmt lögum bönnuð hefur borið á að þeim sé smyglað til landsins. Þannig hafa við efnagreiningu á Herbalife-afurðum fundist efni sem hafa hægðalosandi áhrif en misnotkun slíkra efna getur leitt til bullandi niðurgangs og þar með þyngdartaps. Langtímanotkun slíkra efna getur haft skaðleg áhrif í för með sér fyrir meltingarkerfið. Einnig hafa ákveðnar örvunarpillur sem seldar eru undir merki Herbalife þau áhrif að matarlystin minnkar og brennsla eykst umfram það sem eðlilegt má telja. Pillurnar innihalda efnið efedrín í formi plöntuefnis sem kallast ma huang en efedrín hefur svipaða virkni og amfetamín. Margir ábyrgir aðilar, þar á meðal Fæðu- og Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA), hafa lýst miklum áhyggjum vegna þeirrar staðreyndar að efedrín (oft í formi ma huang) er blandað í afurðir sem síðan eru markaðssettar og seldar sem heilsuafurðir. Aukaverkanir vegna efedríns geta verið margar. Þannig hafa fundist tengsl á milli neyslu efedríns og svefnleysis, taugaspennings, skjálfta, höfuðverkja, hækkandi blóðþrýstings, óreglulegs hjartsláttar, hjartaáfalls, heilablóðfalls og dauða. Enginn ætti því að velkjast í vafa um að neysla efnis eins og efedríns getur verið stórhættuleg ekki síst fyrir fólk með háþrýsting, dulda hjartaóreglu og hjartsláttartruflanir.
Að lokum
Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því að ýmsir sem lesa þetta svar reiðast mér og telja sig vita betur. Því segi ég að ef einhver getur bent mér á vel gerða, hlutlausa rannsókn, sem sýnir fram á megrunar- og lækningamátt Herbalife bið ég um að fá hana í hendur. En þrátt fyrir ítrekaða leit að rannsóknum, sem styðja fullyrðingar kappsfullra sölumanna á hollustu- og lækningagildi Herbalife, hefur mér ekki tekist að finna eina einustu!!
Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur