Hvað orsakar útferð?

Spurning:

Komið þið sæl.

Mig langar að fá að vita hvað orsakar útferð. Þannig er mál með vexti að ég er búin að hafa útferð frá því ég var 10 eða 11 ára. Fyrst var hún mjög þykk og græn og svo þegar ég byrjaði á blæðingum, nýorðin 13, þá fór hún að verða þynnri. Núna er ég 18 ára og þetta hrjáir mér virkilega mikið. Ég vil ekki nota innlegg og þarf þess vegna að skipta um nærbuxur 4 sinnum á dag. Mér finnst ég alltaf vera „óhrein“. Er eitthvað hægt að gera?

Ég byrjaði á pillunni fyrir 2 árum síðan og var að vona að hún myndi breyta þessu eitthvað, en það hefur ekki gerst. Ég fór ekki í neina skoðun og er á Meloden. Getur verið að hún sé of dauf fyrir mig? Ég hef einu sinni prófað að sleppa að fara á túr og byrjaði á nýju spjaldi og fór ekki á túr fyrr en það var búið. Allan tímann var ég með milliblæðingar. Er það eðlilegt?

Útferðin er farin að hrjá mig virkilega mikið og mér finnst ég ekki getað sofið hjá strákum, nema vera alveg NÝBÚIN í sturtu (og geri það þess vegna ekki eftir skyndikynni, því þá er ég yfirleitt búin að tala við þá í svona 3 tíma). Ég get ekki verið að fara í sturtu mörgum sinnum á klukkutíma.

Ég kemst ekki til læknis og myndi aldrei þora að segja frá þessu, mér finnst þetta vera svo mikið feimnismál. Hvað get ég gert???

Með kveðju.

Svar:

Sæl.

Ég ætla að byrja á að benda þér á grein hérna á vefnum um útferð eftir Sólveigu Dóru lækni. Þar lýsir hún þessu vandamáli sem þú fæst við. Það er mjög algengt og fimmtungur kvenna þarf jafnvel að ganga með innlegg. Því sérðu að þetta er málefni sem læknar fást oft við og á ekki að vera neitt feimnismál.

Nú veit ég ekki af hverju þú kemst ekki til læknis en það væri gott ef þú gætir farið í skoðun til þess að fá staðfestingu á því að það sé ekki sýking til staðar.

Varðandi pilluna þá er ekkert óeðlilegt við það að fá milliblæðingar, kannski var þetta tilfallandi og það er ekkert víst að þetta gerist aftur ef þú reynir að fresta því að fara á túr seinna. Almennt er þó góð regla að taka ekki fleiri en 3 spjöld í röð og taka sér svo hlé, hafðu það í huga.

F.h. Félags um forvarnir læknanema,
Jón þorkell Einarsson, læknanemi