Hvað vara fráhvarfseinkenni lengi?

Spurning:
Ég hætti nýlega að taka Efexor Depot sem ég hef tekið núna í 8 mánuði. Ég tók 150 mg á dag. Lyfið virkaði vel til að byrja með og aukaverkanirnar voru ekkert svo slæmar. En núna undanfarna 2 mánuði þá fannst mér það ekkert virka lengur og aukaverkanir voru að ágerast. Þær voru m.a. svitaköst, slappleiki, svimi og þyngdaraukning. Mér fannst þetta ekki vera lengur þess virði svo ég ákvað að hætta og minnkaði skammtinn í 75 mg á dag í 2 vikur og hætti svo. Ég var áður á þessu lyfi fyrir 2 árum síðan og hætti þá svona á því og allt var í lagi. Núna finn ég mjög mikil fráhvarfseinkenni, mig svimar, er endalaust svöng, sef illa, er mjög uppstökk, fæ kuldaköst, sé hreyfingar útundan mér, er óglatt, með niðurgang og ýmislegt fleira. Það eru 5 dagar síðan ég hætti að taka lyfið og fráhvarfseinkennin ágerast ef eitthvað er. Vara þessi einkenni lengi og er algengt að fólk finni fyrir fráhvarfseinkennum af þessu lyfi? Er eitthvað sem hægt er að gera til að minnka þau?

Svar:

Ég vona að þú sért komin yfir fráhvarfseinkennin núna. Það er rétt að það sem þú lýsir gætu verið fráhvarfseinkenni eftir að hafa hætt töku Efexor. Þessi fráhvarfseinkenni sem sem sumir fá við að hætta töku lyfsins geta tekið allt upp í nokkrar vikur. Þó ganga þau oftast yfir á skemmri tíma. Kröftug fráhvarfseinkenni eins og þú lýsir eru sjaldgæf. Líklega hefði þér gengið betur ef þú hefðir minnkað skammtinn enn meira og í lengri tíma. Flestir telja að lítið sé hægt að gera annað til að draga úr þessum einkennum en að hætta töku lyfsins í áföngum. Mikilvægt er að allar ákvarðanir um töku lyfja sem þessa og hvort, hvenær eða hvernig lyfjatökunni skuli hætt, séu teknar í samráði við lækni. Þó að þér finnist lyfið hætt að verka getur samt komið í ljós eftir aðtöku er hætt að verkunin var einhver. Ef aukaverkanir gera töku lyfsins erfiða eða óbærilega, má oft draga úr þeim eða losna við þær með því að minnka skammtinn. Ef það dugar ekki er oftast hægt að finna annað lyf sem hjálpar án þess að aukverkanirnar séu óbærilegar. Þetta þarf þó að sjálfsögðu allt að gerast í samráði við lækni.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur