hvað veldur glerhlaupslosi og líka sjónhimnulosi?

Spurning:
Mig langar til að vita hvað það er sem veldur glerhlaupslosi og líka sjónhimnulosi

Svar:
Fyrst er að skilgreina glerhlaup og sjónhimnu. Glerhlaup er gagnsæja hlaupið sem fyllir augað að innan. Glerhlaupið gegnir litlu hlutverki öðru en að gefa auganu fyllingu og hleypa ljósi í gegnum sig. Hægt er að nema brott glerhlaupið án mikilla vandkvæða og glerhlaupslos er algengt og góðkynja fyrirbrigði. Sjónhimnan er veggfóðrið innan í auganu. Þetta er taugavefur sem gegnir því geysimikilvæga hlutverki að taka á móti ljósinu og breyta því í taugaboð sem síðan eru borin til heilans um sjóntaugina. Sjónhimnulos er alvarlegt fyrirbrigði sem getur valdið varanlegum sjónskaða og þarf að meðhöndla þegar í stað.

Glerhlaupslos er algengt fyrirbrigði og er algengara eftir því sem við eldumst. Við getum tekið líkingu af hlaupi í krukku uppi á hillu. Fyrr eða síðar skilur hlaupið sig og það er það sem gerist í glerhlaupslosi. Glerhlaupið breytist í vökva í miðjunni sem síðar leitar út til jaðranna og allt í einu fellur hlaupið saman – skilur sig frá jöðrunum. Helstu einkenni glerhlaupsloss eru: nýjar doppur í sjónsviði, stundum eins og hringur sem svífur nálægt miðju sjónsviðs. Einnig geta sést glampar. Glerhlaupið getur stundum verið fast við sjónhimnuna (veggfóðrið) og þegar það togar í sjónhimnu, sem skynjar aðeins ljós, getur heilinn skynjað það sem ljós! Einmitt þess vegna getur glerhlaupslos einstöku sinnum valdið sjónhimnulosi og einkenni þess eru að nokkru leyti lík. Örstöku sinnum togar glerhlaupið það fast í sjónhimnuna að hún rifnar og þá getur sjónhimnan losnað frá. Þess vegna ber að skoða hvern þann sem upplifir nýjar doppur í sjónsviði og glampa þegar í stað til að útiloka sjónhimnulos. Þegar sjónhimnan losnar frá getur viðkomandi skynjað það líkt og tjald sé dregið fyrir sjónsviðið. Ef sjónhimnan losnar frá þar sem makúlan, eða skarpa sjónin er til staðar, missir viðkomandi sjón.

Það sem helst veldur glerhlaupslosi er hár aldur og nærsýni. Nærsýni er einnig ein af orsakaþáttum sjónhimnulos, en einnig getur högg á augað valdið því, aðgerðir á auga o.fl. þættir.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári.