Hvað veldur hárlosi?

Spurning:

Ég er 24 ára gömul og er að reyna að safna hári í fyrsta skipti í mörg ár. Undafarinn einn og hálfan til tvo mánuði hef ég hinsvegar verið með alveg gríðarlega mikið hárlos, og er þetta nú komið á það stig að ég er farin að hafa áhyggjur af þessu, niðurföllin í baðherberginu hjá mér eru að stíflast, það eru hár bókstaflega út um allt. Vissulega er ég með mjög gróft hár, þannig að þetta virkar efalaust meira en það er, en það er sama.

Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta sé sjúkdómur, en langar samt sem áður að vita hvort að það séu einhverjar ákveðnar orsakir sem geti verið fyrir þessu og hvort að það sé eitthvað til ráða. Ég hef heyrt að stress og þvíumlíkt geti valdið þessu, er það rétt? Ég er búin að vera mjög stressuð yfir lokaprófum undanfarið þannig að það gæti staðist.

Með kærri þökk.

Svar:

Sæl.

Lífsferill háranna er að þau vaxa, detta svo af og nýtt hár tekur að vaxa. Langoftast detta hárin af jafnt og þétt. Þá verður maður ekki mikið var við þetta nema einstaka hár í greiðu eða bursta. Stundum detta óvenjumörg hár af í einu. Þá lýsir þetta sér svipað og þú hefur orðið vör við undanfarið. Þetta er ekkert sjúklegt og gengur yfir á nokkrum mánuðum. Hárið þynnist sjaldnast til frambúðar.

Við mikil veikindi eða álag geta mun fleiri hár farið í þann fasa að detta af. Þetta sést hjá þeim sem hafa lent í því að veikjast alvarlega, t.d. fengið flensu með háum hita. Hárlosið verður þó ekki beint í kjölfar veikindanna, heldur 3-6 mánuðum seinna. Þetta sama fyrirbæri sést hjá konum eftir barnsburð. Hárið er oft óvenju þykkt og ræktalegt á meðgöngu en u.þ.b. hálfu ári eftir fæðingu verður mikið hárlos og hárið rytjulegt. Þetta jafnar sig með tímanum og lítið við því að gera.

Sjaldan er sjúkdómur að baki hárloss, ef hárlosið er jafnt dreift um allan hársvörðinn. Dæmi um kvilla sem geta valdið hárlosi er járnskortur og truflun á starfsemi skjaldkirtils. Öðru máli gegnir ef hárlos er ójafnt dreift þannig að há kollvik myndist eða skallatungl. Í þeim tilvikum ætti viðkomandi að leita læknis og að athuga hormónastarfsemi, ef sjúklingur er kona. Sum lyf geta haft hárlos sem aukaverkun.

Blettaskalli er kvilli sem ekki er óalgengur og stafar af sjálfsofnæmi og lýsir sér sem alveg hárlausir flekkir í hársverði. Sumir missa allt hár. Skallablettir geta líka fylgt mikilli vöðvabólgu og álagi en lagast þegar undirliggjandi aðstæður verða eðlilegar. Síður að jafnt hárlos sé af völdum álags ekki nema það hafi verið mikið og nokkrum mánuðum áður.

Kær kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum