Spurning:
Halló, ég er 22 ára og ég mig vantar ráð. Málið er þannig að ég veit ekki til hvaða sérfræðings ég á að leita.
Ég hef farið til heimilislæknis, magasérfræðings og næringaráðgjafa og þeir hafa ekki getað hjálpað mér þrátt fyrir einkenni sem trufla vægast sagt allt mitt líf. Ég tel hér upp öll einkennin sem ég er með og mér þætti vænt um ef þú segðir mér til hvaða læknis ég ætti að fara til.
Ég melti matinn mjög illa, ef ég tek ekki hægðalyf þá er allt fast (það fer nákvæmlega ekkert út, ekki einusinni smá) eins lengi og hægt er, eða þangað til ég tek hægðalyf. (Fyrir 4 árum gerðist það í heila 2 mánuði!! ég fékk sorbitol hjá lækninum sem virkaði ekki!!) Ég tek það fram að ég hef aldrei vanið mig á hægðalyf. Magasérfræðingurinn sem ég var hjá skrifaði uppá Magnesia fyrir mig fyrir 6 mánuðum sem virkar ágætlega. Ég get ekki borðað neitt nema hreinan kjúkling og lambakjöt án þess að fá eftirfarandi einkenni: bólgur í framan, hálsi, gómi, nefi og tungu. Það er stundum vont að anda með nefinu og mér finns eins og ég hafi verið að anda í kafi í klórvatni. Ég fæ hellur fyrir eyrun, það mikið að ég heyri ekkert með því eyranu í einhvern tíma og það lekur gröftur úr eyranu. Vinstri upphandleggurinn á mér dofnar, ég fæ doða í efri vörina og í fingurgómana.
Ég á erfitt með að hreyfa mig, mér er illt allstaðar í líkamanum og stundum dett ég bara í gólfið án þess að hafa misstigið mig. Ég get ekki framkvæmt fínhreyfingar. Ég er með hvíta bletti á líkamanum og sár og gröft í hársrótinni. Þegar hálsinn byrjar að dofna þá verð ég með eindæmum pirruð og rosalega döpur. Ég var á þunglyndislyfjum í mörg ár sem gerðu aðeins illt verra, því að á endanum þá var ég ekki þunglynd heldur voru það þessi einkenni sem létu mér liða illa. Sjónin verður skrítin og ég sé svarta depla. Ég get alls ekki einbeitt mér og ég verð rosalega þreytt og þegar verst liggur á þá sef ég í 17 tíma á sólahring. Allt þetta eru einmitt einnig þær aukaverkanir sem ég hélt að ég hefði alltaf af þunglynislyfjunum en það skrítna er að þau hættu ekki eftir að ég hætti að taka þau!! Ég hef alltaf verið með þessi einkenni nema að síðustu ár verður alltaf erfiðara og erfiðara að melta matinn. Meltingasérfræðingurinn fann bólgur í vélinda og bakflæði, sem ég finn að versnar þegar ég tek ekki hægðalyf, næringasérfræðingurinn sagði að þetta væri candida sveppasýking, sem ég á svo sem erfitt með að trúa því að meltingasérfræðingurinn sagði að það væri ekki möguleiki. Heimilislæknirinn sagði að þetta væri mjólkuróþol eða glúteinóþol… án þess að athuga neitt. En svo kom í ljós að það er stemmir ekki því svo eftir það fór ég í magaspeglun og þar voru tekin sýni. Þar sem að það eru nákvæmlega 2 sortir af mat sem lætur mig ekki fá þessi einkenni þá er ég orðin vægast sagt mjög máttvana eftir 3 daga og ég get alls ekki tekið nein vítamín eða járnmixtúru.. ekki einusinni náttúrulegt. Ég veit að þú gætir aldrei sagt mér hvað það er sem hrjáir mig en ég vona að þú getir bent mér á hverskonar sérfræðings ég á að fara til. Ég auðvitað fyllist hræðslu þegar ég dett í gólfið að ástæðislausu og læknarnir geta ekkert gert fyrir mig! Mamma byrjaði að fara með mig til læknis þegar ég var 4 ára útaf þessum einkennum. Sem reyndar hafa versnað síðan þá.
Svar:
Þetta eru margvísleg einkenni sem þú hefur og svolítið erfitt að átta sig á því hvað þetta getur verið af þinni frásögn. Ég held að það sé ekki til neinn ákveðinn sérfræðingur sem geti leyst öll þin vandamál. Rétt væri hjá þér að leita til þín heimilislæknis sem gæti hjálpað þér og bent þér á leiðir og metið hvort þörf sé einhverra frekari rannsókna en þú hefur þegar farið í. Hann gæti vísað þér til sérfræðinga ef við á og haldið utan um niðurstöður.
Kveðja,
Einar Eyjólfsson, heimilislæknir