Hvenær á að fara inn á geðdeild?

Hæ, ég er 18 ára stelpa með mikið af vandamálum. Er greind með ADHD, Asperger’s, kvíða og Bipolar. Er ekki á lyfjum nema við adhd vegna þess að þau lyf sem ég hef fengið láta mér bara líða verr. Ég fæ þunglyndis köst og mikinn kvíða og verð ofboðslega einmana og á þá til að fá sjálfskaða/sjálfsvígs hugsanir. Hjúkrunarfræðingar hafa stungið upp á því að ég fari á bráðamóttöku geðdeildarinnar en ég veit ekki hvernig ég fer að því og ég veit ekki hvort ég ætti að vera að fara… Mér finnst eins og ég væri bara að taka tíma frá öðrum sem þyrftu meira á því að halda en ég að fá hjálp. Hvernig gengur það fyrir sig ef maður fer á geðdeildina og hvernig er það ef maður er lagður inn?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þú mátt ekki hugsa það þannig að þú sért að taka tíma frá öðrum því það eiga allir rétt á aðstoð og fyrsta skrefið er að stíga fram og biðja um hjálp. Ég ráðlegg þér að leita til bráðmótttöku geðdeildar því þar fer fram fyrsta mat á vanda þeirra sem þangað leita og er fólki vísað þaðan áfram til frekari greiningar og/eða meðferðar. Stundum getur viðkomandi þurft á innlögn að halda en að öðrum kosti er vísað í viðeigandi úrræði innan eða utan Landspítala. Við innlögn á geðdeild fer í gang ákveðin samvinna á milli skjólstæðings og annara fagaðila (geðlækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa o.s.frv.) sem vinna saman í því að finna út hvaða meðferð hentar best hverjum og einum. Ekki vera hrædd við að leita þér aðstoðar, þarna úti eru góðir aðilar sem vinna við það að aðstoða fólk sem hefur misst tökin á lífinu og þurfa aðstoð og umhyggju til að vinna í sínum málum. Ræddu þetta líka við fjölskylduna þína eða vini, það er oft gott að hafa einhvern með sér sem hjálpar manni í gegnum fyrstu skrefin.

Gangi þér/ykkur vel.

 

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.