Hvenær á að panta tíma í legvatnsprufu og snemmsónar?

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er 35 ára og er komin 7 vikur á leið. Mig langar að vita hvenær á meðgöngu ég á að panta tíma í legvatnsprufu og snemmsónar.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Konum 35 ára og eldri stendur til boða að fá svokallaða hnakkaþykktarmælingu til að meta líkur á litningagöllum og einnig legvatnsástungu í sama markmiði. Hnakkaþykktarmælingin er gerð við 12-13 vikna meðgöngu og út frá niðurstöðu hennar eru líkur á litningagöllum reiknaðar og boðin legvatnsástunga. Hún er gerð við 15-16 vikna meðgöngu og er áhættan á fósturmissi um 1% við slíka ástungu. Hætta á Downs syndrome hjá fóstrinu er 1 á móti 270 miðað við 35 ára aldur móðurinnar. Ætlir þú að þiggja þessar rannsóknir er best fyrir þig að panta þér tíma hjá fósturgreiningardeildinni við sem næst 12 vikna meðgöngu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir