Hvenær fara skólaskoðanir fram?

Spurning:

Hvenær fara skólaskoðanir fram?

Sonur minn byrjaði í skóla í haust mig langar að vita hvað bíður hans.

Svar:

Áhersla á eftirlit með heilsu barna á grunnskólaaldri hefur breyst á undanförnum árum. Áhersla er lögð á að hafa áhrif á lífstíl barnana með fræðslu og heilbrigðishvatningu og að finna þau börn sem eru í áhættuhóp. Sérstaklega er fylgst með börnum sem eiga við einhver vandamál að stríða hvort sem það er af andlegum eða líkamlegum toga.

Skólahjúkrunarfræðingur hefur umsjón með heilsu barna í grunnskólunum en samvinna er á milli lækna, hjúkrunarfræðinga, kennara, sálfræðinga, félagsráðgjafa og annars starfsfólks skólanna. Ekki eru gerðar ítarlegar læknisskoðanir eins gerðar voru fyrir nokkrum árum en rannsóknir hafa sýnt að þær skila ekki tilætluðum árangri.

Áður var gerð læknisskoðun hjá 6 ára börnum en nú fer skoðun 5 ára barna fram á heilsugæslustöðvum hjá læknum og hjúkrunarfræðingum þar sem meðal annars er gert víðtækt mat á þroska þeirra. Þá eru þau bólusett gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta.

Skólahjúkrunarfræðingur sér síðan um að um að mæla sjón, hæð og þyngd hjá 6 ára börnum. Hafi börn af einhverjum ástæðum ekki gengið í gegnum 5 ára skoðun er þess gætt að þau börn fái bólusetningu og læknisskoðun 6 ára gömul.

Sjón er aftur mæld hjá 7 ára börnum. Læknir sér börnin þegar þau eru níu ára og bólusetur þau gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Hjúkrunarfræðingur mælir þá hjá þeim hæð og þyngd og sjón er prófuð.

Hjá 12 ára stúlkun er mótefnasvörun fyrir rauðum hundum mæld og bólusett ef hún reynist ekki fullnægjandi. Öll 12 börn eru hæðar- og þyngdarmæld og litarskyn prófað. Loks er sjón, heyrn, hæð og þyngd mæld hjá 14 ára börnum. Þá fer fram læknissskoðun og bólusett gegn barnaveiki, stífkrampa og lömunarveiki.
Með von um að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja
Erla Sveinsdóttir, læknir.