Spurning:
Ég er ófrísk, reyndar bara komin 6-7 vikur, er aum í brjóstunum og illt í maganum og fæ furðulega verki og svoleiðis. Er 19 ára og er þar af leiðandi bara með fyrsta barn. Ég var að hugsa hvenær á að sjást á mér ég er (eða var frekar mjó (167cm og 50 kíló). Mér fannst sjást á mér ef ég borðaði, (en það var nú annað vandamál) svo í hvaða viku á sjást á mér? Ég er eiginlega alltaf borðandi, því bara þá er mér ekki illt í maganum, svo ég veit alveg að ég hef fitnað smá en það er líka allt í lagi, bara hvenar fer bumban að sjást? Er líklegt að maður slitni mikið ef maður var svona mjór fyrir?
Með von um skjót svör, er mjög forvitin og vantar svör:) (er búin að lesa fullt en finn ekkert um þetta).
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Því miður er ekki til neitt einfalt svar við þessari spurningu því það er mjög misjafnt eftir konum hvenær fer að sjá á þeim. Á sumum sést mjög fljótlega á en öðrum seinna. Svo verða sumar konur mjög sverar en aðrar eru nettari á meðgöngunni. Ég held að þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur þó ekki sé farið að sjá á þér núna þegar þú ert komin 7 vikur, það kemur að því.
Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Brynja Helgadóttir ljósmóðir