Hvenær hefur getnaður líklegast orðið?

Spurning:
Kæri svarandi. Mig langar að vita hvernig er hægt að vera viss um það hvenær barn var getið? Málið er að ég svaf hjá 5. nóvember og svo fór ég á túr um 9.-11. nóvember til 18.-19. nóvember. Síðan svaf ég aftur hjá 21. nóvember og svo aftur 25. nóvember og svo 30. nóvember og 2 .desember. Mig langar að vita hvenær sé líklegast að barn hafi verið getið á þessum tíma? Er hægt að sjá það í sónar upp á dag? Er ekki ólíklegt að það hafi verið 5. nóvember því ég fór á túr stuttu seinna?

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Reikna má með að egglos verði um 14 dögum eftir 1 dag síðustu blæðinga. Ef þú ert með reglulegan tíðahring ca 28 daga þá má reikna með því að getnaður hjá þér hafi orðið í kringum 25. nóvember miðað við blæðingartíma þinn. Það er mjög ólíklegt að getnaður hafi átt sér stað fyrr þar sem þú ferð á blæðingar í 7-8 daga og ég geri ráð fyrir að blæðingarnar þínar hafi verið eðlilegar þá. Ekki er hægt að sjá í sónar nákvæmlega hvenær barnið var getið. Vona að þetta svari spurningum þínum.

Gangi þér vel.
Brynja Pála Helgadóttir ljósmóðir