Spurning:
Kæra Dagný!!
Ég er með einn lítinn 6 mánaða og hætti með hann á brjósti þegar hann var 2 mánaða vegna þess að ég varð skyndilega alveg uppþurrkuð. Þar sem hann er fyrsta barnið mitt langar mig að fá svar við spurningu sem ég hef verið að velta fyrir mér: Hvenær er í lagi að gefa honum venjulega mjólk? Hann er enn á SMA og fær jógúrt og skyr og fleira. Þess vegna hef ég verið að velta þessu fyrir mér og hvort það sé ekki í lagi að hann fari að drekka venjulega mjólk. Ungbarnaeftirlit taldi það ekki æskilegt fyrr en um 10-12 mánaða aldur. Fróðlegt væri að heyra þína afstöðu í sambandi við þetta.
Kveðja úr Grafarvogi.
Svar:
Sæl.
Það hefur mikið verið spekulerað á undanförnum árum hvað sé nú best að gefa börnum og hvenær. Sífellt er að koma betur í ljós hvað næringin sem við fáum frá upphafi hefur mikil áhrif á heilbrigði okkar og vellíðan alla ævi. Til að mynda hefur verið sýnt fram á að einstaklingar sem hafa verið vannærðir í æsku fá frekar hjarta- og æðasjúkdóma á fullorðinsárum heldur en þeir sem fengu nóg að borða. Einnig hefur verið sýnt fram á að brjóstagjöf hefur forvarnargildi hvað þetta varðar. Þurrmjólkinni er ætlað að líkja eftir brjóstamjólkinni sem best og hefur því líkari efnasamsetningu og móðurmjólkin heldur en ómeðhöndluð kúamjólk. T.d. er mun meira járn í þurrmjólkinni en kúamjólkinni og ýmis efni í hagstæðari hlutföllum fyrir barnið. Því er talið æskilegt að ef barn er ekki á brjósti þá fái það þurrmjólk þar til það er farið að borða vel úr öllum fæðuflokkunum svona um 10 til 12 mánaða aldurinn. Allar aðrar mjólkurvörur ætti að gefa í hófi fram að þeim tíma þar sem kúamjólkurprótein eru mjög mikil og sterk og valda álagi á óþroskað meltingakerfi barnsins og nýru þess. Þar er óblönduð kúamjólk og skyr efst á lista. Hagstæðast er talið fyrir barnið að byrja á léttum barnagrautum og fara síðan út í grænmeti, ávexti og síðan kjöt. Talið er betra að geyma fisk og egg fram yfir eins árs aldurinn. Allar þær ráðleggingar sem koma frá ungbarnaverndinni varðandi næringu ungbarna eru byggðar á viðmiðum sem sett eru fram af manneldisráði og byggja á margra ára rannsóknum á næringu barna og áhrifum hennar á heilbrigði. Vonandi svarar þetta spurningu þinni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir