Spurning:
Sæl Dagný.
Ég er með rétt rúmlega mánaða gamla stelpu og mig langar að vita hversu lengi ég má vera með hana úti í vagni. Í síðustu viku var hún orðin 4500 grömm. Ég hef lengst farið í hálftíma göngutúra.
Einnig vil ég vita hvenær er óhætt að fara með hana t.d. út að versla og annað. Ég hef bara farið með hana í heimsóknir til fjölskyldumeðlima en ekki þorað með hana neitt annað.
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Sæl.
Það fer nú bara eftir veðri og vindum hversu lengi barn má vera úti í vagni. Í góðu veðri er ekkert að því að barnið sofi heilan dúr úti en sé veðrið kalt ætti barnið ekki að sofa úti í vagni. Eins skiptir máli hvernig aðstæður eru þar sem barnið sefur úti. Það er t.d. ekki heilnæmt að sofa úti þar sem er mikil bílaumferð og mengun. Best er að venja börn út í vagn í áföngum, t.d. 10 mínútur fyrst og síðan smám saman lengur þar til barnið er farið að sofa dúrinn úti í vagni.
Varðandi verslunarleiðangra þá má segja að því fleira ókunnugt fólk sem er í kring um barnið þeim mun meiri líkur eru á að það smitist af einhverjum sjúkdómum sem eru í gangi í þjóðfélaginu, t.d. kvefi eða inflúensu. Lítið barn er næmt fyrir sýkingum þar sem mótefnakerfi þess er svo óþroskað.
Jafnvel þótt barnið sé á brjósti þá getur það fengið sýkingar frá einhverjum sem móðirin hefur ekki haft samskipti við og því ekki myndað mótefni til að færa barninu með móðurmjólkinni. Við þetta bætist svo að lítið barn ræður verr við sýkingar og getur jafnvel orðið alvarlega veikt af sakleysislegu kvefi, t.d. RS vírusnum. Því er skynsamlegt að vernda barnið sem mest gegn utanaðkomandi sýkingum meðan mótefnakerfi þess er að þroskast. Verslunarferðir eru því ekki til þess fallnar að draga börnin með í þær. Fyrir nú utan hvað börnum finnst leiðinlegt í búðum.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir