Hver er munurinn á Centyl og Lasix?

Spurning:

Góðan daginn.

Hver er munurinn á að taka 1 stk af Centylog að taka hálfa Lasix á dag?
Gerir það sama gagn?

Fyrifram þakklæti.

Svar:

Centyl med kaliumklorid inniheldur bendróflúmetazíð og kalíumklóríð. Það er í flokki vægra þvagræsilyfja, svokallaðra tíazíða. Þvagræsiáhrif lyfsins koma fram í hindrun á enduruppsogi natríums í nýrnapíplum. Til að vega upp kalíumtap (sem verður við þvagræsingu) inniheldur lyfið kalíumklórið.

Lasix inniheldur fúrósemíð og tilheyrir flokki súlfónamíða sem eru kröftug þvagræsilyf. Lyfið er stuttverkandi, hraðvirkt og kröftugt þvagræsilyf. Lyfið hefur mun kröftugri verkun en tíazíðþvagræsilyf. Það þarf að taka kalíum með, nema ef viðkomandi er verulega nýrnabilaður.

Þetta eru ólík lyf sem bæði hafa þvagræsandi áhrif.

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur