Spurning:
Ég er með fyrirspurn sem eflaust margir lenda í eða það fá börn til að borða. Þannig er það hjá mér að ég á 3 stráka sá elsti hefur alltaf borðað og gerir enn svo kemur miðjubarnið sem aldrei hefur viljað borða nema brauð og pylsur. o.k. hann hefur þrifist þó lítill og léttur sé , svo eignast ég þriðja strákinn og hann vill heldur ekki borða, hann fer til dagmömmu sem sagðist ekki gefast upp og viti menn hann var farinn að borða hjá henni allt. hús sagði að hann væri að herma eftir bróður sínum en hann var ekki orðinn 1 árs. svo fer hann í leikskóla nú í ágúst sem sagt 2 ára og hann vill ekki borða , hann borðar ekki í hádeginu á leikskólanum hanm borðar í kaffitímanum og fær þá brauð og stundum kökur sem hann nátturulega elskar.
En spurningin er hvernig maður á að haga sér á maður að gefast upp og gefa honum eitthvað annað sem hann borðar eða ekki hann hefur þrifist en er ekki þungur e´ða stór frekar en bróðir hans sem ekki borðar enn ( nema brauð og pylsur ) Hann er 2 ára og við vorum að borða og hann vildi ekki en við öll borðuðum og svo kom snakki , hvað á maður að gera hann grét og bræður hans vorkenndu honum mjög mikið. Sem sagt hvernig á maður að hegða sér ég get alveg orðið brjáluð á þessu.. Ég tek það fram að ég var mjög matvönd sem barn en hef verið að læra en ekki eins og þeir.
Með von um hjálp
Svar:
Það þykir svöngum sætt sem söddum finnst óætt. Þetta er gamall málsháttur sem mikið er til í. Mér er málið skylt því sjálfur ólst ég upp á kakósúpu og tvíbökum til margra ára og var svo matvandur að mér lá við uppköstum þegar eitthvað "ógeðslegt" kom inn fyrir mínar varir. Þetta olli mér svo verulegum vandræðum síðar meir, í heimsóknum, á ferðalögum og þegar ég var sendur í sveit. Sjálfur hef ég því reynt að gæta þess að börnin mín tileinki sér ekki þennan kvilla. Þau ráð sem mér hafa reynst best eru þessi:
1. Hafðu eitthvað gott eftir matinn, t.d. smásnakk, ís eða eitthvað þess háttar, sem enginn fær nema hann hafi borðað matinn sinn, klárað. Þú getur haft skammtana litla í fyrstu en alls ekki bregða út af reglunni. Enga vorkunnsemi.
2. Notaðu öfuga sálfræði, þ.e.a.s. segðu að þessi matur sé nú bara fyrir stóra stráka, þetta sé bara fyrir heljarmenni o.s.frv. Þú getur efast um að barnið geti bragðað á þessu, eðlilega, en ef það sannar sig verður gleði þín og hrifning að vera ótvíræð. Vertu sérlega dugleg við að hæla barninu þegar það sýnir rétta hegðun en slepptu aðfinnslum og leiðindum þegar matvendnin segir til sín.
3. Ef barnið neitar að borða matinn skaltu ekki fóðra það síðar á öðru. Jafnvel þótt þú vitir að það þurfi að borða. Fyrr eða síðar segir svengdin svo til sín að málshátturinn á við.
Ég veit ekki hvað strákurinn í miðið er gamall en þú getur kannski rætt við hann um þetta og sagt honum til dæmis að hann geti ekki farið með ykkur í ferðalög og þess háttar ef hann getur ekkert borðað, því það sé ekki víst að réttur matur fáist þar sem þið verðið. Þú getur líka reynt að gera matinn spennandi með því að segja að svona borði Kínverjarnir, Indverjarnir, Ítalarnir o.s.frv. Kannski farið þið einhvern tíma til Ítalíu… "ef þú vilt koma með verðurðu að geta borðað ítalskan mat". Matvendni barna er ekki þeim að kenna. Börnunum finnst maturinn virkilega ógeðslegur (það veit ég mætavel). Það er hins vegar ábyrgð foreldranna að koma þeim ekki upp á þetta og venja þau af þessum ósið. Þú sást að dagmamman gafst ekki upp og hafði sigur. Þú getur það líka.
Gangi þér vel.
Reynir Harðarson
sálfræðingur S: 562-8565