Hvernig get ég þyngt mig?

Spurning:

Ég er um tvítugt og er að reyna að þyngja mig og það gengur svona frekar hægt. Ég er að lyfta og borða próteinríka fæðu en það er eitthvað sem ég er að gera vitlaust. Ég var að velta fyrir mér hvort að það gæti verið salt á saltstöngum sem mér finnst svo gott? Ég las það að mig minnir í framhaldsskóla að salt myndi draga í sig vökva úr líkamanum eða eitthvað í þá áttina, er ég að borða of mikið salt?

Svar:

Til þess að þyngjast þarft þú að borða meiri orku en þú brennir. Þó svo að þú borðir próteinríka fæðu þá er hugsanlegt að þú sért að borða of lítið af kolvetnum (og jafnvel fitu). Ef líkaminn fær ekki næga orku þá fara próteinin sem þú borðar í orkumyndun en ekki vöðvauppbyggingu – en vöðvar er væntanlega það sem þú ert að sækjast eftir. Reyndu því að borða meira eða oftar. Of mikil saltneysla bindur vatn í líkamanum (dregur ekki vatn út úr honum) svo líkaminn á erfiðara með að losa sig við umframvökva. Mikil saltneysla getur þar af leiðandi valdið of háum blóðþrýsingi (of mikill vökvi í kerfinu). Fólk er misjafnlega viðkvæmt fyrir þessu, en flestir borða of mikið salt miðað við ráðleggingar sem taka mið af rannsóknum síðustu ára. Nú veit ég ekki hvort þú borðir saltstangir daglega eða í óhófi né hvernig mataræði þínu er háttað, þannig að ég á erfitt meða að segja til um hvort þú sért að borða of mikið salt. Mikið af salti er í tilbúnum kjötvörum, ostum, pakkasúpum og sósum svo og saltkjöti, saltfiski og öðrum söltuðum matvælum. Tilbúnir réttir innihalda einnig oft mikið salt. Neyslu á þessum vörum ætti þar af leiðandi að stilla í hóf.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur