Hvernig getur mér liðið betur?

Spurning:
Hæ hæ, mér líður svolítið illa. Ég er 22 ára og mér er búið að líða illa í mörg ár.
Vandamálið er það að ég er alltaf döpur og einmana samt á ég æðislega fjölskyldu mann og börn. Ég er síþreytt, kem engu í verk, get sofið endalaust en hef mig á fætur á morgnana með miklum erfiðismunum og kvíða. Stundum nenni ég ekki með strákinn í leikskólann, maðurinn minn vinnur úti og sér stundum um heimilið líka þegar hann kemur heim, til dæmis að taka til. Ég er með mikið samviskubit útaf því að ég er heima allan daginn og geri ekki neitt, því að ég hef mig ekki í það. Ég er alltaf með verki hér og þar en aldrei finnst neitt. Mér finnst ég ekki geta neitt.
Svo þegar ég var krakki lenti ég í miklu einelti alveg til loka skólagöngu minnar. Mér hefur verið nauðgað þrisvar sinnum, 16 ára lenti ég í mikilli neyslu, hef nú verið edrú í 5 ár, reyndi 3var sinnum sjálfsvíg. Hef ekki reynt það nú í nokkur ár og hef ekki hugsað um það í langan tíma. En ég næ ekki að rétta mig við andlega, ég fék 63 stig út úr sjálfsprófinu um þunglyndi. Ég hef aldrei sagt foreldrum mínum neitt um þetta (hef alltaf verið talin svarti sauðurinn i minni fjölskiydu) það er allt svo fullkomið hjá hinum í minni fjölskiydu. Ég mundi setja allt í háaloft ef ég færi að tala um eitthvað svoleiðis.

Svar:
Lýsingin þín bendir til þunglyndis en auðvitað þarftu að fara í viðtal til fagaðila til þess að fá nákvæmari greiningu á vandanum.

Einkenni þunglyndis geta m.a. verið depurð, sektarkennd, lítið sjálfstraust, áhugaleysi, einbeitingarskortur, truflun á svefni og matarvenjum og sjálfsvígshugsanir. Eitthvað af þessu virðist eiga við um þig. Ljósi punkturinn er hins vegar sá að þú segist eiga góðan mann og börn. Það gefur þér meiri von um að geta átt gott líf fyrir höndum ef þú nærð að vinna þig upp úr þessu depurðarástandi sem þú ert í núna. Þú hefur greinilega lent í hræðilegum erfiðleikum í fortíðinni og það er kannski eitthvað sem þú þarft að ræða betur við fagaðila. Með góðri hjálp geturðu vonandi lært að lifa fyrir daginn í dag og framtíðina.

Ef þér líður mjög illa er ráðlegt fyrir þig að leita til bráðamóttöku geðsviðs Landspítala v/Hringbraut. Þar er opið alla virka daga kl. 9.30-23.00 og um helgar kl. 13.00-21.00. Einnig er hægt að leita til heilsugæslulækna eða sjálfstætt starfandi fagaðila.

Hérna hjá Geðhjálp á Túngötu 7, eru starfandi ýmsir sjálfshjálparhópar sem allir eru velkomnir í. Það reynist oft mjög gagnlegt fyrir fólk að mæta í slíkan hóp og fá góð ráð frá fólki sem staðið hefur í svipuðum sporum í sínum veikindum.

Á mánudögum er kvíðaröskunarhópur kl. 20.00, á þriðjudögum er eineltishópur kl. 20.00 og þunglyndishópurinn er á fimmtudögum kl. 17.30. Endilega hringdu í okkur í síma 570-1700 ef þú vilt fá frekari upplýsingar.

Kær kveðja, Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.