Hvernig hætti ég að vera viðkvæm?

Ég er að vinna í þjónustustarfi og stundum eru kúnnarnir að hneykslast yfir einhverju sem skiptir engu máli og ég veit að ég ætti bara að hundsa þegar þeir eru dónalegir en ég tek þetta alltaf inn á mig sama hvort það sé bara eitthvað örlítið sem þeir setja út á. Og tárast jafnvel yfir bara einhverju pínulitlu. Hvernig get ég hætt að vera svona viðkvæm fyrir einhverju ómerkilegu sem ókunnugur kúnni segir?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þú átt að sjálfssögðu ekki að láta dónaskap yfir þig ganga og mátt alveg láta það sjást þegar þér sárnar en þú þarft að greina á milli  smáatriða og aðalatriða eins og þú segir sjálf.

Það er afar persónubundið hversu þykkan skráp við náum að koma okkur upp og hann getur verið misþykkur, það sem við þolum í dag þolum við ekki á morgun og það sem við þolum góðri vinkonu að segja við okkur þolum við ekki að heyra frá öðrum.

Margar konur finna líka mun á því hversu viðkvæmar þær eru eftir því hvar þær eru staddar í tíðahringnum.

Þér gæti gagnast að fá aðstoð við að setja mörk og efla sjálfa þig. Það eru ýmsar leiðir til þess til dæmis hafa sjálfstyrkingarnámskeið hjá Dale Carnegie hjálpað mörgum en svo gæti líka verið þjóðráð að panta tíma hjá sálfræðingi sem gæti hjálpað þér að ná tökum á þessari líðan. Margar heilsugæslustöðvar bjóða í dag slíka aðstoð í einhverri mynd.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur