Hvernig losna ég við feit læri?

Spurning:

Ég er 25 ára gömul kona og er hálf ráðalaus sökum þess hve ég er með feit læri. Á tímabili var ég að hugleiða að fara í fitusog en þegar ég komst að því hvað það kostaði sá ég að ég hefði ekki efni á því. Ég hef reynt að svelta mig til að eitthvað gerist og meira að segja hef ég hugleitt uppköst eftir að hafa borðað til að koma í veg fyrir að lærin stækki enn frekar. Í hvert skipti sem ég ætla að fara að kaupa mér buxur leggst ég í hálfgert þunglyndi út af þessu. Eflaust myndu margir kalla þetta hégóma en fyrir mér er þetta verulegt vandamál. Því langar mig að spyrja hvort það sé eitthvað sem ég get gert til að grenna lærin?

Ein í vanda.

Svar:

Reyndu ekki að svelta þig því það hægir á brennslugetu líkamans, reyndu heldur aldrei að þvinga líkamann til að kasta upp það getur verið lífshættulegt.

Fitan safnast á líkama okkar á misjafnan hátt allt eftir hvernig fitufrumudreifingin er í líkamanum. Þannig eru sumar konur „ perulaga" og safna mestri fitu á mjaðmir og læri en aðrar eplalaga og safna mestri fitu um sig miðja. Fitan er eins og blóðið í líkamanum, hún tilheyrir ekki neinum ákveðnum svæðum á líkamanum. Þ.e.a.s. þú getur ekki náð fitunni af lærum með því að gera mikið af læraæfingum. Þegar líkaminn brennir fitu nýtir hann fitu úr fitufrumunum víðsvegar í líkamanum . Það er ekki hægt að kalla fram eingöngu fitu úr fitufrumunum á lærum. Leiðin til að losa sig við fitu er að hreyfa sig reglulega, t.d. 30 mínútur á dag og fækka hitaeiningum sem neytt er. Konur þurfa að neyta lágmark 1200 hitaeininga á dag og æskileg hitaeininganeysla væri þá 1200-1500 ef markmiðið er að losna við fitu.

Styrktarþjálfun eykur grunnbrennslu líkamans og er því mjög góð leið til að grennast. Með því að styrkja efri hluta líkamans er líka hægt að breyta aðeins hlutföllum líkamans, þ.e. lærin geta virst breið ef efri hluti líkamans er mjög rýr.

Í stuttu máli: styrktarþjálfun 2-3x í viku, þolþjálfun 3-4x í viku og hollt fitulítið fæði 1200-1500 hitaeiningar á dag er leiðin til að losna við aukakíló og komast í kjörþyngd.

Með kveðju,
Ágústa Johnson