Hvernig lýsir sykursýki sér?

Spurning:

Hvað gerist í Langerhanseyjunum (í brisinu) þegar einstaklingur fær sykursýki? Og eru engar lækningar í sjónmáli á þeim bænum og/eða hvernig miðar þeim?

Svar:

Góðan daginn,

Í grófum dráttum má skipta sykursýki í tvö form sykursýki gerð 1 og sykursýki gerð 2 og er gangur sjúkdómsins mjög ólíkur milli þessara flokka. Sjúklingar eiga það þó sameiginlegt, hvora gerðina sem þeir hafa, að styrkur sykurs í blóðinu er hækkaður vegna skorts á hormóninu insúlíni sem framleitt er í svokölluðum beta-frumum í Langerhanseyjum brisins. Þegar við borðum, brjóta ensím, kolvetni niður í einsykrur sem flytjast inn í blóðrásina og hækka blóðsykur sem aftur hvetur losun á insúlíni. Insúlín gerir flutning á sykri úr blóðinu og til vefjanna mögulegan, en vefirnir eru háðir sykri til að geta starfað og lækkar þá jafnframt blóðsykurinn. Orsakir sykursýki eru ekki þekktar og ekki alveg að fullu vitað hvað gerist nákvæmlega þegar einstaklingur greinist með sykursýki, en eftir áralangar rannsóknir hafa komið fram kenningar sem teljast líklegar. Erfðir spila stóran þátt í sjúkdómsmyndinni. Ef báðir foreldrar hafa sykursýki gerð 2 eru allar líkur á að þeirra börn hafi einnig sjúkdóminn, en ef báðir foreldrar hafa sykursýki gerð 1 eru um 20% líkur á að börn þeirra fái einnig sjúkdóminn. Erfðir gegna því stærra hlutverki í sykursýki af gerð 2.

Sykursýki gerð 1

Þessir sjúklingar framleiða ekkert insúlín og beta-frumur Langerhanseyjanna eru ónýtar. Þeir eru því háðir því að fá utanaðkomandi insúlín um alla framtíð. Þetta form sjúkdómsins er óalgengara, um 5 – 10% sykursýkissjúklinga hafa þessa gerð, en flestir þeir sem greinast eru börn og ungmenni allt fram til 30 ára aldurs og greinast að jöfnu drengir sem stúlkur.

Hverjar eru hugsanlegar orsakir sykursýki gerð 1?

Ónæmiskerfið er talið eiga stóran hlut að máli en einnig hafa arfgengir þættir og umhverfisþættir áhrif. Talið er að annað af tvennu gerist:

Ónæmiskerfið fer að framleiða mótefni sem ræðst á eigin vefi, í þessu tifelli beta-frumur brisins.
Ónæmiskerfið nær ekki að fjarlægja utanaðkomandi þætti s.s. vírusa, sem þá ráðast á beta-frumur brisins og eyðileggja þær. Þeir umhverfisþættir sem hér eru helst taldir spila inn í eru veirusýkingar, ýmis eitruð efni og það sem mikið er verið að rannsaka í dag, kúaprótein. Í mjólkurafurðum eru prótein sem kallast beta-casein og eru til nokkrir undirflokkar af þeim. Nýgengi sykursýki gerðar 1 er mun algengara á hinum Norðurlöndum en á Íslandi og hafa rannsóknir beinst að beta-caseini A1 og B sem mun minna er af í íslenskri mjólk en á hinum Norðurlöndunum. Frekari rannsókna er þörf áður en hægt er að fullyrða um þessa hluti. Allar líkur benda til þess að sjúkdómsferlið sé í gangi í einhvern tíma áður en sjúkdómsmynd sykursýkinnar kemur fram. Sjúkdómsferlið er hratt og yfirleitt er um 80 – 90% af beta-frumunum ónýtar þegar sjúklingurinn leitar læknis.

Sykursýki gerð 2

Ólíkt sykursýki af gerð 1 framleiða sjúklingar með sykursýki af gerð 2, insúlín. Mjög mismunandi er milli sjúklinga hversu mikil framleiðslan er og í sumum tilfellum er insúlínframleiðslan eðlileg. Þessir sjúklingar hafa allir það sem kallað er minnkað insúlínnæmi, þ.e. að viðtakarnir sem insúlín tengist svara ekki eðlilega og sykurinn flyst því ekki inn í vefina og blóðsykur helst því hækkaður. Sumum þessara sjúklinga nægir að gæta að mataræði sínu, en aðrir virðast ekki geta aukið insúlínframleiðsluna til að yfirvinna minnkað næmi og þurfa á lyfjagjöf að halda sem jafnvel með tímanum þróast yfir í að þeir þurfi að sprauta sig með insúlíni.

Hverjar eru hugsanlegar orsakir sykursýki gerð 2?

Hér eru það tveir megin þættir sem virðast skipa máli; minnkað insúlínnæmi og insúlínskortur. Vísindamenn eru ekki sammála um hvort kemur á undan, en flestir aðhyllast það að sjúkdómsmyndin byrji á minnkuðu insúlínnæmi. Erfðir og umhverfisþættir spila hér inní en eru þó aðrir en í sykursýki af gerð 1. Þeir þættir sem taldir eru skipta hvað mestu máli er fæðuofgnótt, offita og öldrun.

Svar líkamans við minnkuðu insúlínnæmi er aukin insúlínframleiðsla sem að öllum líkindum leiðir til þess að annað af tvennu gerist:

Stöðugt aukin insúlínframleiðsla leiðir til þess að beta-frumurnar eyðileggjast smám saman og því minnkar framleiðslan.

Stöðugt hækkaður blóðsykur veldur skemmdum á frumum. Þessi stöðugt hái blóðsykur getur því valdið skemmdum á beta-frumunum og því minnkar framleiðslan. Á síðustu áratugum hefur orðið mikil aukning á báðum gerðum sykursýki, og verður sú auking ekki skýrð ein og sér út frá erfðaþáttum.

Hvert beinast augu manna í dag í leitinni að lækningu við sykursýki?

Sjálfvirkar insúlíndælur hafa verið græddar í menn síðastliðin 20 ár, en þær þykja ekki gefa betri raun fyrir
sjúklinginn en að sprauta sig með insúlíni. Gallinn við þær er að ekki hefur tekist að framleiða dælur nema þær sem mæla styrk sykurs í blóðinu og dælu sem losar insúlín í samræmi við það eins og gerist í brisi heilbrigðs einstaklings. Helsta vandamálið er að líkamin myndar örvef utan um nemann á nokkrum dögum eða vikum og hann verður því óvirkur.

Á síðustu 15 árum hafa verið gerðar tilraunir með flutning á brisi eða beta-frumum úr heilbrigðum einstaklingum í sjúklinga með sykursýki. Ókosturinn er hinsvegar sá að þegar líffæri eru grædd í einstakling fylgir ævilöng meðferð með ónæmisbælandi lyfjum sem bæði hafa ýmsar eiturverkanir á líkamann og auka hættu á sýkingum og krabbameini. Ekki þykir vænlegt að setja annars fríska einstaklinga í svo erfiða meðferð, þar sem mun hættuminna er að sprauta sig með insúlíni daglega. Ef þörf er hinsvegar á að flytja annað líffæri í sjúklinginn t.d ef nýrnaígræðsla er fyrirhuguð og því ónæmisbælandi meðferð fyrirliggjandi þykir oft vænlegt að gera um leið brisígræðslu.

Í dag beinast augu manna helst að ígræðslu á beta-frumum umluktum hálfgegndræpri himnu sem hleypir insúlíni og úrgangsefnum út í blóðrásina og næringarefnum inn en útilokar frumur ónæmiskerfisins að beta-frumunum. Þessi leið vekur því ekki upp svar ónæmiskerfisins og því yrði ekki þörf á lyfjameðferð með ónæmisbælandi lyfjum. Þessar rannsóknir eru dýrar, aðgangur að þeim efnum sem þörf er á takmarkaður ( þ.e beta-frumum úr mönnum). Rannsóknir beinast einnig að notkun á beta-frumum úr dýrum s.s svínum en insúlín svína hefur svo til sömu próteingerð og insúlín manna. Mikil áhersla er einnig lögð á að finna þau gen sem talin eru valda sykursýki. Þannig væri hægt að fyrirbyggja að þeir einstaklingar sem hafa þessi gen þrói með sér sjúkdómsmyndina. Hver niðurstaðan verður mun tíminn leiða í ljós, en allar þessar rannsóknir eru mjög tímafrekar. Vonandi ertu einhverju nær um hver sjúkdómsmyndin í sykursýki er talin geta verið og hvert augu manna beinast í dag með tilliti til lækninga.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir læknir