Spurning:
Sæl.
Ég er 50 ára og hef áhuga á að fara í almenna, gagngera heilsufarsskoðun. Hér á ég við að fá hjartalínurit, lungna röntgenmynd, mælingu á blóðþrýstingi, púls og súrefnismettun. Einnig að láta rannsaka blóðið m.t.t. almenns blóðhags auk nýrna-, hjarta-, meltingar- og hormónastarfsemi.
Ég er að leita að stað/stofnun þar sem ég get fengið þetta allt gert Á SAMA STAÐ og SAMDÆGURS.
Kannist þið við hvar ég get nálgast slíka þjónustu? Vitið þið hvað slík þjónusta kostar almenning?
Með bestu kveðju og fyrirfram þökk fyrir góða þjónustu ykkar.
Svar:
Sæl.
Almennar heilsufarsskoðanir geta verið misjafnar eftir því hvaða þætti er verið að skoða hverju sinni. Hjartavernd og Krabbameinsfélagið eru dæmi um stofnanir sem stunda rannsóknir /skoðanir í forvarnarskyni. Í Krabbameinsfélaginu beinist skoðunin að krabbameini og áhættuþáttum þess. Þar fara fram ýmiss konar krabbameinsrannsóknir, leitið upplýsinga hjá Krabbameinsfélaginu.
Í Hjartavernd beinist skoðun að hjarta- og æðasjúkdómum.
Hjartavernd mælir með að eftir fertugt láti fólk mæla blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur og fyrr ef um ættarsögu hjarta- og æðasjúkdóma er að ræða. Ef þessir þættir mælast vægt hækkaðir fær viðkomandi tækifæri til að grípa inn í með breyttum lífsháttum eins og reglubundinni hreyfingu, hollara fæði og fleira.
Hjartavernd býður upp á svokallað áhættumat, það felur í sér alhliða mælingu á þekktum og mælanlegum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdómum. Matið felur í sér tvær heimsóknir. Í þeirri fyrri eru mældar fastandi blóðfitur (heidlarkólesteról-tríglyceríðar og HDL), fastandi blóðsykur, blóðþrýstingur, hæð/þyngd, hjartalínurit tekið og spurningalisti lagður fram þar sem farið er yfir heilsufarssögu viðkomandi. Í seinni skoðun eru niðurstöður úr blóðprufum komnar fram, blóðþrýstingsmæling er endurtekin og viðtal er við lækni. Þá kemur stundum fram þörf á nánari skoðun t.d. áreynsluhjartalínuriti eða sykurþolsprófi (þegar fólk mælist með hækkaðan fastandi blóðsykur). Eins er fólki vísað áfram í eftirlit annars staðar ef viðkomandi mælist í bæði skiptin með of háan blóðþrýsting og frekara eftirlit eða endurtekning á mælingu á kólesteróli eftir einhvern tíma ef það mælist of hátt. Ef ástæða þykir til m.t.t. ástands viðkomandi og heilsufarssögu er fólki vísað í röntgenmynd af lungum. Það er gert á sjúkrahúsum eða á stofu hjá röntgenlæknum.
Yfirleitt er það nú svo með rannsóknir eins og þú ert að spyrja um að það er metið hverju sinni þörfin á þeim. Heimilislæknar gera almenna heilsufarsskoðun eins og þær sem Hjartavernd býður upp á. Einnig ef ástæða þykir til gæti hann tekið blóðprufu til að skoða blóðstatus (Hemóglóbin), ákveðin efni til að skoða nýrnastarfsemi o.s.frv. Varðandi hormón í blóði þá eru fleiri tugi hormóna mælanlegir í blóði og því er það metið hverju sinni hvaða hormón þarf að mæla.
Þú spyrð um púls og súrefnismettun. Púls kemur fram í hjartalínuriti. Súrefnismettun er mæld með þar til gerðum súrefnismettunarmælum og er þess konar mæling gerð ef viðkomandi er í andnauð, eða t.d. lungnahlustun ekki góð.
Mörg apótek bjóða upp á ýmiss konar mælingar, eins og blóðþrýsting, kólesteról og beinþéttnimælingar.
Ekki veit ég til þess að á einum stað sé boðið upp á allar þær mælingar sem þú spyrð um nema á sjúkrahúsunum og er það þá gert þegar ástæða þykir til og viðkomandi er sjúkur.
Margar fleiri rannsóknir eru til eins og magaspeglun, ristilspeglun o.fl. og eru þær einungis framkvæmdar ef ástæða þykir til.
Stundum er þörf á að meta andlegt ástand viðkomandi m.t.t. þynglyndis, kvíða og annarra geðraskana. Því geðrækt er jafn mikilvæg og aðrir þættir til að viðhalda góðri heilsu.
Af þessari upptalningu er ljóst að væntanlega verður þú að leita á fleiri en einn stað til að láta skoða þig til hlítar.
Virðingarfyllst,
Ástrós Sverrisdóttir, fræðslufulltrúi Hjartaverndar