Hvert leitar maður vegna félagsfælni?

Spurning:

Hvert leitar maður vegna félagsfælni?

Svar óskast …

Svar:

Kæri

Það vekur flestum nokkurn ugg að þurfa að koma fram eða vera í þeirri stöðu að vekja athygli annarra. Slíkt er fullkomlega eðlilegt. Sá sem er haldinn félagsfælni upplifir hins vegar yfirþyrmandi ótta við að aðrir kunni að dæma frammistöðuna eða gagnrýna. Hann óttast að segja eða gera eitthvað rangt eða óviðeigandi og verða sér til skammar. Kjarninn í félagsfælni er viðvarandi og mjög sterkur ótti við ýmsar félagslegar aðstæður eða það að koma fram. Það sem greinir hann frá venjulegum viðbrögðum er hvað hræðslutilfinningarnar eru sterkar og úr takt við aðstæður. Dæmi um félagsfælni gæti verið ótti við að borða á veitingastöðum, nota almenningssalerni eða tala fyrir framan stóran hóp af fólki. Kvíðinn gerir venjulega vart við sig þegar sá sem er fælinn sér fram á að hann gæti þurft að kljást við þær aðstæður sem hann óttast. Venjuleg viðbrögð eru að forðast þessar aðstæður. Félagsfælni takmarkar því mjög það líf sem annars væri hægt að lifa.

Félagsfælni er nógu algengur vandi sem flestir þeir sem sinna tilfinningalegum vandamálum kljást við hann. Þú ættir því að geta leitað til flest allra sálfræðinga. Flestir myndu þeir nálgast vandamálið með svipuðum hætti. Þú finnur t.d. lista yfir sálfræðinga á Doktor.is. Aðrar fagstéttir sinna líka þessum vanda, einkum þó geðlæknar sem stundum nota lyf til þess að hjálpa við að komast yfir erfiðasta hjallann.

Bestu óskir um gott gengi.

Hörður Þorgilsson, sálfræðingur.