Hvítari tennur

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er að velta fyrir mér aðgerðum sem eru í boði til að fá tennurnar til að verða hvítari. Í Sjónvarpsmarkaðnum er að öllu jöfnu ágætt úrval ýmiskonar smyrsla og annarra aðferða til að framkvæma aðgerðina sjálfur, sem tekur að jafnaði nokkrar vikur. Ég treysti samt betur fagmönnunum, þ.e. tannlæknunum til að sjá um þetta, og reyndar skilst mér að flestir tannlæknir geti framkvæmt svona aðgerðir, en þar sem ég er staddur erlendis í augnablikinu get ég ekki spurt minn tannlækni. Það sem mig langar að vita er á hvaða verðbili þessar aðgerðir liggja þegar þær eru framkvæmdar af tannlæknum og hverjir ókostirnir við þær eru.

Með kveðju frá Bandaríkjunum.

Svar:

Sæll.

Til lítils er að reyna að nefna þér verð. Það er (og ætti að vera) mjög mismunandi hjá tannlæknum. Að auki er mismunandi mikið fyrir því haft að ná viðunandi árangri. Þegar þú ert reiðubúinn að hefjast handa skaltu taka upp símann og hringja í nokkra tannlækna og gera þína eigin verðkönnun. Þú gætir einnig borið saman verð í Bandaríkjunum og hér heima.

Helstu ókostir þessa eru að tennurnar kunna að verða viðkvæmar fyrir hitabreytingum sem gengur þó yfir á fáeinum dögum og svo gæti orðið þörf á að endurgera fyllingar í framtönnum þínum ef einhverjar eru.

Kveðja,
Ólafur Höskuldsson, tannlæknir