Hvítu blóðkornum fjölgar en sökkið stöðugt?

Spurning:
Af hverju aukast hvítu blóðkornin en sökkið ekki?

Það hafa verið teknar blóðprufur hjá mér í sumar (tvær, ein í júní og núna í ágúst) og í blóðinu hafa hvítu blóðkornin aukist þó nokkuð en ekkert mælist í sökki.

Hvað er að gerast í líkamanum?

Við hvað eru hvítu blóðkornin að berjast?

Með von um svar

Svar:

Viðbrögð líkamans við sýkingu, hvort sem um er að ræða veiru- eða bakteríusýkingu er að fjölga og virkja hvít blóðkorn til að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Hvað það tekur langan tíma og hversu mikið hvítu blóðkornunum fjölgar er mismunandi eftir tegund sýkingar og útbreiðslu hennar. Mæling á sökki er rannsókn sem notuð er til að greina bólgusvar í líkamanum. Þessi mæling er í raun ekki annað en mæling á því hvernig rauð blóðkorn falla til botns í blóðvökva á ákv. tímaeiningu. Við eðlilegar aðstæður falla þau lítið sem ekkert og haldast aðskilin í blóðvökvanum. Við bólgusvörun í líkamanum loða blóðkornin saman, verða þyngri og falla því meira til botns. Sýking og bólgusvörun eru því sitt hvort ferlið í líkamanun, oft fara þau saman en svo þarf ekki að vera. Hvít blóðkorn geta fjölgað sér sem svar við sýkingu án þess að bólga sé til staðar í líkamanum.

Hvað veldur hækkun hvítra blóðkorna hjá þér er engan veginn hægt að svara með þessum upplýsingum. Ekki kemur fram hvaða einkenni eru til staðar né af hverju blóðsýnin voru tekin. Ég vænti þess að sá læknir sem hefur sent þig í þessar blóðrannsóknir geti fundið lausnina og veitt þér þær upplýsingar sem þig vanhagar um.

Gangi þér vel,

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir