Iljarfellsbólga

Spurning:

Mig langar að fá álit ykkar á vandamáli sem hefur verið að hrjá mig núna í nokkra mánuði en þá fór ég að finna fyrir verk innanvert á hæl hægri fótar og man ég ekki til þess að hafa fengið neinn áverka á hælinn. Verkurinn er verstur þegar ég byrja að ganga á morgnanna, en skánar er líður á daginn. Ég fór til læknis fyrir nokkrum vikum og hann sagði að þetta myndi lagast af sjálfu sér en þvert á móti hefur þetta frekar versnað.

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Það sem mér dettur fyrst í hug að sé að hrjá þig er það sem kallast í læknisfræði plantar fascitis. Vandamálið er algengt en mjög mismunandi hversu slæm einkenni eru allt frá því að viðkomandi finnur fyrir vægum óþægindum í að vera svo slæmt að það hefur áhrif á hans daglegu athafnir. Frá hælbeininu og fram á táberg liggur vefur sem búinn er til úr bandvef og fitu og myndar svokallaða fasciu sem hefur það hlutverk ásamt vöðvum og liðböndum í fætinum að halda fótlaginu og þá sérstaklega á ilboganum. Ef mikið álag er á fætur, eða nýtilkomið álag geta komið rifur í vefinn og er algengast að það verði þar sem hann festist á hælbeinið en getur þó verið hvar sem er. Ef skemmdin er í festunni, er þreifanlegur aumur blettur innanvert á hælnum. Algengast er að sjá vandann hjá konum sem ganga á háhæluðum skóm, hjá þeim sem eru nýbyrjaðir af miklum krafti á nýrri hreyfingu og hjá þeim sem eru of feitir. En hvað er þá til ráða? Það er rétt hjá lækninum þínum að oft lagast vandinn með tímanaum og það hjálpar mikið að hvíla fótinnn. Í dag er það óraunhæft að fólk hafi tækifæri til að taka langt tímabil í hvíld. Sem fyrsta meðferð er gott að nota svamphringi sem fást í apótekum og eru þeir settir við auma svæðið og verka þeir þannig að þeir taka þrýstinginn af auma svæðinu þegar gengið er. Kælimeðferð er einnig góð og er ráðlagt að leggja kælipoka á auma svæðið í 15–20 mínútur í senn, daglega í 12–14 daga. Ekki má setja pokann beint á húðina vegna hættu á kali og því þarf að setja t.d. þvottapoka utan um hann fyrst. Gott er að nudda svæðið með kremum sem innihalda bólgueyðandi efni t.d. Felden geli en stundum getur einnig reynst nauðsynlegt að taka bólgueyðandi lyf tímabundið. Einnig hjálpar að teygja á hásininni og er ráðlagt að gera það daglega. Til að fyrirbyggja vandann er rétt að hafa samband við stoðkefisfræðing og fá hann til að meta hvort nauðsynlegt er fyrir þig að fá innlegg í skóna þína til að koma í veg fyrir frekari einkenni.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni, gangi þér vel.

Kveðja, Sólveig Magnúsdóttir, læknir.