Iðjuþjálfun og grindarlos

Spurning:

Sæll Arnar!

Við erum hérna þrír nemar í iðjuþjálfun á 3ja ári við Háskólann á Akureyri og erum að gera verkefni um hvernig iðjuþjálfar geta aðstoðað konur með grindarlos. Við erum að kanna hvaða aðstoð þessar konur hafa fengið og langar að spyrja þig hvort að þær hafa leitað til þín og hvað þú hefur ráðlagt þeim?

Með fyrirfram þökk um svar.

Kær kveðja.

Svar:

Komið þið sælar.

Innan mæðraverndar höfum við einfaldar staðlaðar upplýsingar auk bæklinga og upplýsingablaða til fræðslu. Að auki hefur Miðstöð Mæðraverndar staðið fyrir fræðslu (nóvember 1996) á þingi á Grand Hotel með erlendum og innlendum fyrirlesurum þar sem grindarverkir voru þemað.

Í kjölfar þess var stofnað áhugafélag fólks um grindarverki. Það gekkst fyrir fræðslu í blöðum auk þess að gefa út áðurnefndan bækling sem dreift er hjá mæðravernd allstaðar (vona ég) á landinu. Tengiliður ykkar við það félag gæti verið Ósk Axelsdóttir löggiltur sjúkraþjálfari við DAS Hafnarfirði. Að auki var langt viðtal við mig (og eða grein eftir mig) í félagsblaði skrifstofu- og verkafólks Hafnarfjarðar fyrir þremur árum að mig minnir.

Við erum í góðri samvinnu við sjúkraþjálfaradeild Landspítalans og vísum mikið út á einkastöðvar. Að sjálfsögðu fögnum við áhuga ykkar. Þegar þið hafið kynnt ykkur það sem ég bendi á (eigið það kannski fyrir) sjáið þið hvar skóinn kreppir. Konur með grindarlos eiga erfitt með að sætta sig við að geta ekki gert hvað sem er líkt og áður. Þar gætuð þið komið inn með fræðslu og stuðning ekki síður og jafnvel betur en sjúkraþjálfarar. Svo vil ég hvetja ykkur til að koma með eigin tillögur um hvar ykkur finnist þið eigið að koma að þessu verki. Býð ykkur velkomnar í hópinn.

Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir
yfirlæknir Miðstöð mæðraverndar
Heilsuverndarstöð Reykjavíkur
Barónsstíg 47
101 Reykjavík