Kasta upp eftir þindarslitsaðgerð?

Spurning:
Sæll læknir.
Fyrir nokkru síðan fór ég í svokallaða bakflæðis/þindarslitsaðgerð, reyndar var ég ekki með mjög mikið þindarslit en samt með mjög mikinn brjóstsviða. Í dag er ég alveg laus við brjóstsviðann sem er alveg frábært en annað vandamál hefur komið upp. Að minnsta kosti tvisvar sinnum hef ég fengið magakveisu, í annað skiptið var ég með smá flensu en í hitt skiptið var það daginn eftir að hafa skemmt mér nokkuð hraustlega. Í bæði skiptin var mér verulega flökurt en ég gat ekki með nokkru móti kastað upp, sama hversu mikið ég kúgaðist, ég varð allur háræðasprungin í framan og leið vægast sagt hrikalega. Er þetta eitthvað sem ég þarf kannski að búa við alla ævi?
Með kærri kveðju.

Svar:
Að geta ekki ,,kastað upp" er vel þekktur fylgikvilli skurðaðgerða við vélindabakflæði. Skurðaðgerðin er í því fólgin að styrkja mót vélinda og maga með því að vefja efsta hluta magans utan um mótin. Venjulega, þegar fólk ,,kastar upp" verður slökun á þessu svæði sem auðveldar uppgang magainnihaldsins, en slík slökun verður síður þegar búið er að styrkja þessi mót með skurðaðgerð. Þess vegna má gera ráð fyrir að þér muni reynast erfitt að kasta upp um ókomna tíð. 

Kveðja,  Ásgeir Th