keto fyrir gall lausa

Mig langar til að spyrja hvort ketofæði henti þeim sem sem eru ekki með gallið. Ég er búin að vera á keto fæði í 2 mán. rúml. en ekkert gerist.
Með kvepju

Sæl/ll

Ég tek því þannig að þú sért að meina gallblöðruna, að þú sért ekki með hana.

Í galli eru gallsölt sem gegna lykilhlutverki við meltingu á fitu. Þessi mikilvægu sölt hverfa þó ekki úr líkamanum þótt gallblaðran sé fjarlægð því gallið er ekki myndað í gallblöðrunni, heldur lifrinni. Eftir myndun berst það í gallblöðruna, þar sem það er geymt og styrkt með því að fjarlægja vatn úr því. Þaðan berst gallið niður í skeifugörn um gallgöng þegar hálfmelt fita og aðrar stórsameindir úr fæðunni berast í skeifugörnina.

Þegar gallblaðra er fjarlægð er verið að fjarlægja gallgeymsluna, ekki gallframleiðandann. Þegar blaðran er farin er gallseyti ekki eins fínstillt og á meðan gallblaðran er til staðar en í staðinn seytlar gall sífellt úr lifrinni ofan í skeifugörn. Ef gallblaðra hefur verið fjarlægð þarf að passa sérstaklega upp á fituneyslu, borða holla fitu en ekki fitu í mikið unnum matvælum.

Ég mæli með því að ræða við þinn heimilislækni um hvort þér sé óhætt að vera á þessu mataræði, þar sem að það þarf sérstaklega að passa upp á mataræði þegar gallblöðruna vantar.

Gangi þér vel,

Bylgja Dís Birkisdóttir, hjúkrunarfræðingur.